spot_img
HomeFréttirKristófer: Gæti alveg hugsað mér að spila heima eftir skólann

Kristófer: Gæti alveg hugsað mér að spila heima eftir skólann

Körfuboltalið Furman háskólans hefur náð þeim merka áfanga að sigra alla sína heimaleiki í deildarkeppninni í vetur. Nokkuð sem körfuboltalið skólans hefur ekki náð að afreka síðustu 25 ár. Furman fór alla leið í úrslitin í SoCon riðlinum á síðasta ári og allt eins líklegt að liðið fari alla leið í March Madness þetta árið miðað við siglinguna sem komin er á strákana.

 

 

 

 

Karfan.is hafði samband við Kristófer Acox og ræddi við hann um veturinn og framhaldið, en hann sagði þetta vera merkan áfanga fyrir skólann og sögu hans. "Þetta er eitthvað sem hefur aldrei verið gert áður og það er heiður að fá að vera partur af því," sagði Kristófer.

 

Kristófer hefur heldur betur verið partur af því þar sem hann er þriðji stigahæsti leikmaður liðsins með 8,5 stig að meðaltali í leik, næstefstur í fráköstum með 5,5 í leik og leiðir alla leikmenn í riðlinum í skotnýtingu með 62,3%. Þar að auki er hann burðarás í varnarleik liðsins sem sást einna best þegar hann meiddist í úrslitaleik Furman í SoCon keppninni fyrir ári síðan. 

 

Er Furman liðið betra núna en nokkru sinni fyrr? "Ég veit ekki með það, en það hefur ekki verið spilaður svona góður körfubolti í Furman í tugi ára. Það voru mjög góð lið í kringum 1950-1980 en það var allt annar bolti og leikurinn búinn að þróast töluvert." Kristófer var þó sannfærður um að þetta væri besta lið síðustu kynslóða í skólanum. 

 

Þegar þetta er skrifað eru Furman einir í 2. sæti SoCon riðilsins en eiga 3 leiki eftir áður en úrslitakeppnin byrjar. Ætla liðsmenn Furman sér alla leið í mars?

 

"Við erum búnir að vinna öll liðin í riðlinum og okkur finnst við eiga mikið inni," segir Kristófer en hann telur liðið vera mjög líklegt til að komast alla leið þetta árið. "Við fengum auðvitað smjörþefinn af því í fyrra."

 

Hægt er að segja að þetta árið sé opinn gluggi fyrir liðið til afreka. Stephen Croone leikstjórnandi liðsins hefur spilað sem andsetinn þetta árið og leiðir liðið í stigaskori og stoðsendingum. Croone er á sínu síðasta ári og útskrifast frá skólanum í vor. Kristófer er sammála þessu. 

 

"Við teljum okkur mjög líklega til að setja okkur í góða stöðu fyrir March Madness í SoCon keppninni. Það getur allt gerst eins og við sáum í fyrra þannig að maður verður að passa sig að vanmeta ekki neitt og gefa allt sem maður hefur í hvern leik. Ef einum leik er tapað þá er allt sem við höfum unnið fyrir farið í vaskinn."

 

Kristófer er samt hvergi banginn og segir strákana í Furman ætla langt í keppninni á næsta ári líka, en þá er hann sjálfur á lokaári sínu hjá skólanum. Hefur hann samt eitthvað leitt hugann að því hvað tekur svo við að skólanum loknum?

 

"Já, eitthvað aðeins. Samt ekkert með almennilegar hugmyndir um framhaldið. Get alltaf komið heim og spilað í ár eða tvö — bara til að hlaða batteríin eftir að hafa verið svona lengi í burtu frá öllu. Auðvitað langar mig bara til að halda áfram að bæta mig og eiga topp tímabil á lokaárinu mínu og reyna að komast einhvers staðar í stóru deildirnar. Það er auðvitað alltaf markmiðið að spila með þeim bestu. 

 

Kristófer segist hrifinn af ákvörðun Hauks Helga Pálssonar að koma til Íslands og taka eina leiktíð í íslensku deildinni. "Boltinn heima er orðinn mjög flottur þannig að það gæti alltaf verið möguleiki á að gera eitthvað svipað. Þetta kemur allt í ljós eftir ár."

Fréttir
- Auglýsing -