spot_img
HomeFréttirBesta byrjunarlið KR

Besta byrjunarlið KR

 

Karfan heldur hér áfram að taka saman bestu byrjunarlið hvers félags fyrir sig. Áður höfðum við tekið saman fyrir KeflavíkTindastólNjarðvík og Hauka. Nú er röðin komin að KR. Liðinu með hvað lengstu og merkilegustu sögu íslensks körfuknattleiks frá upphafi. Íslands og bikarmeistaratitlar í tugatali. Því áhugavert að sjá hvaða leikmenn stuðningsmenn liðsins velji sem þá bestu frá upphafi.

 

Aðferðin sem við sættumst á að nota var að tala við 10-15 stuðningsmenn hvers liðs og passað var upp á að hafa þá öllum aldri  þannig að hver kynslóð hefði sitt val. Álitsgjafar eru reglulegir gestir á leikjum liðanna og/eða "innan hús" menn sem þekkja vel til sem velja sitt byrjunarlið, þjálfara og sjötta leikmann.  Með þessu vali létu stuðningsmennirnir svo fylgja smá texta fyrir hvern leikmann sem við svo klipptum niður og settum með. 

 

Kemur líklegast eitthvað á óvart, m.v. hversu langa sögu KR á sér, að innan liðsins eru heilir 3 leikmenn sem spila ennþá. Miðað við gæði þeirra leikmanna sem komust ekki í liðið, en spila enn, kemur það hinsvegar minna á óvart. Jón Arnór Stefánsson hlaut flest (öll) atkvæði allra í þessari kosningu í stöðu skotbakvarðar.

 

Okkar skoðun (Karfan.is) er engin og við tökum okkur hliðarsæti í þessu titekna verkefni. Við tökum aðeins saman þau atkvæði sem við fengum sem í flestum tilvikum voru frekar afgerandi fyrir þá sem um ræðir hér.

 

 

 

Stofnað: 1956

Íslandsmeistaratitlar: 13

Bikarmeistaratitlar: 13

Landsleikir innan liðs:  418

 

 

 

 

Leikstjórnandi: Páll Kolbeinsson

Landsleikir: 43

 

Ekki aðeins stjórnaði Páll leikmönnum sínum eins og herforingi, heldur var hann einnig þess megnugur að spila fantavörn þegar hann var upp á sitt besta. Þekktur fyrir eitt hraðasta “cross-over” í manna minnum, sem oftar en ekki setti varnarmenn á rassinn. Er einn tveggja leikmanna (hinn er Valur Ingimundarson) sem hingað til hafa komist í fleiri en eitt besta byrjunarlið, en Páll er einnig í besta byrjunarliði Tindastóls. 

 

Hvað sögðu álitsgjafarnir:

“Var yfirburða maður sem leiddi KR gegnum mögru árin”

“Var upphafið að gera stöðu leikstjórnanda spennandi fyrir ungviðið á Íslandi”

“Ótrúlega snöggur og útsjónasamur”

“Stýrði leik KR gríðarlega vel”

“Eldri týpan af Ægi Þór Steinars”

 

 

Skotbakvörður: Jón Arnór Stefánsson

Landsleikir: 82 

 

 

Afskaplega lítið sem kemur á óvart við það að Jón Arnór Stefánsson hafi hlotið flest atkvæði allra í þessari kosningu. Hefur átt algjörlega stórbrotinn feril bæði sem atvinnumaður fyrir mörg stærri félög Evrópu, sem og fyrir Íslands hönd. Hefur unnið öll þau einstaklingsverðlaun sem körfuknattleiksmaður á möguleika á á Íslandi. Verður án alls vafa í umræðunni um besta körfuknattleiksmann Íslands um ókomna framtíð.

 

Hvað sögðu álitsgjafarnir:

“Einn af 2-3 bestu íslensku körfuknattleiksmönnunum, sem leikið hafa með KR”

“Alla tíð besti maður liðsins í afar sterkum árgangi”

“Burðarás íslenska landsliðsins undanfarin rúmann áratug”

“Besti körfubolta maður Íslands frá upphafi”

“All in one. Hvað annað er hægt að segja”

“Eina auðvelda valið í þennan hóp”

“Besti körfuboltamaður sem Ísland hefur alið”

“Mikill leiðtogi”

“Hægt að skrifa doktorsritgerðir um hann sem leikmann”

 

 

Framherji: Guðni Guðnason

Landsleikir: 76

 

Guðni, sem var valinn nýliði ársins árið 1983, átti mörg flott ár fyrir KR á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Vann þann stóra með þeim árið 1990 og bikara árin 1984 og 1991. Herra undirstöðuatriði og stöðugleiki ef þeir titlar áttu einhverntíman við, skilaði ávallt sínu fyrir liðið.

 

Hvað sögðu álitsgjafarnir:

“Mjög elju- og útsjónarsamur skotbakvörður/framherji”

“Var með mikinn stökkkraft og frábæra skottækni”

“Ævinlega meðal frákasta- og stigahæstu leikmanna KR í hverjum leik”

“Ótrúlega seigur leikmaður”

“Besta stroka sem maður hefur séð”

“Þetta er maðurinn sem kom "spjaldið oní" á koppinn”

“Herra stöðugleiki”

 

 

Framherji: Helgi Már Magnússon

Landsleikir: 95

 

Helgi hefur átt virkilega flottan feril fyrir KR. Mögulega mætti tala um þessi síðustu 10 ár sem áratug KR og hefur Helgi átt mjög stóran þátt í að svo er. Einnig hefur hann skilað sínu fyrir íslenska landsliðið og fór með því á fyrsta lokamótið síðastliðið haust til Berlínar.

 

Hvað sögðu álitsgjafarnir:

“Klassa leikmaður í vörn og sókn”

“Jafn hæfileikaríkur leikmaður og hann er gull af manni”

“Þetta er topp eintak og hörku spilari”

“Ákveðinn leikmaður og mikill leiðtogi”

 

 

Miðherji: Fannar Ólafsson

Landsleikir: 76

 

Mögulega einhver harðasti leikmaður sem spilað hefur í deild þeirra bestu á Íslandi. Óbilandi trú á verkefninu og keppnisskap fyrir allan peninginn. Sterkur miðherji sem gat allt eins skorað 20 stig og tekið 20 fráköst í hvaða leik sem er.

 

Hvað sögðu álitsgjafarnir:

“Baráttujaxl!”

“Frekur á árangur”

“Leiðtogi!”

“Jafn góður liðsfélagi og hann var óþolandi mótherji”

“Sigurvilji sem aldrei hefur sést áður”

“Þoldi illa að tapa leikjum”

 

 

6. leikmaður: Brynjar Þór Björnsson

Landsleikir: 46

 

Fyrirliði núverandi Íslands og bikarmeistaraliðs KR. Búinn að vera í deildinni frá því hann var kornungur. Er rétt að skríða á besta aldur og kominn með 5 Íslandsmeistaratitla undir beltið, það segir ansi mikið. Möguleikinn á að Brynjar eigi eftir að standa uppi sem einn mesti sigurvegari efstu deildar á Íslandi frá upphafi að loknum feril er algjör. Baneitraður keppnismaður sem grillar varnarmenn reglulega fyrir utan þriggja stiga línuna.

 

Hvað sögðu álitsgjafarnir:

“Byssa!”

“Baráttuhundur sem gefst aldrei upp”

“Fimmfaldur Íslandsmeistari”

“Skotmaskína”

 

 

Þjálfari: Lazlo Nemeth

 

Þjálfaði lið KR á mótum níunda og tíunda áratugs síðustu aldar. Skilaði þeim aftur í hóp þeirra bestu eftir nokkur "mögur" ár.

 

 

Aðrir sem fengu atkvæði:

Ólafur Ormsson

Pavel Ermolinski

Jakob Sigurðarson

Birgir Mikaelson

Kolbeinn Pálsson

Einar Bollason

Axel Nikulásson

Hermann Hauksson

Jón Sigurðsson

Ingi Þór Steinþórsson

Finnur Stefánsson

Benedikt Guðmundsson

Fréttir
- Auglýsing -