KR sigraði Þór Akureyri í DHL-höllinni í dag í kaflaskiptum en spennandi leik. Eftir leikinn situr KR í öðru sæti 1. deildar kvenna með 18 stig eftir 13 leiki en Þór er í 5. sæti með 8 stig eftir 10 leiki. Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta og leiddu gestirnir með tveimur stigum að honum loknum. Þórsarar mættu vel stemmdir til leiks í öðrum leikhluta og náðu snemma 9 stiga forystu. KR-ingar hresstust þó við þegar leið á leikhlutann og komust þær yfir í stöðunni 24-23. Fanney Lind Thomas setti niður þrjú stig fyrir gestina í kjölfarið og tryggði þeim aftur forystuna. Þór leiddi síðan í hálfleik með 7 stigum, 25-32.
KR var sterkari aðilinn í þriðja leikhluta og skoruðu þær 25 stig í honum á móti 13 stigum gestanna. Góður varnarleikur þeirra hélt Þór í 9 stigum allt fram á lokamínútuna en síðustu fjögur stig leikhlutans voru Þórsara og með þeim minnkuðu gestirnir muninn niður í 5 stig fyrir lokafjórðunginn. Þórsstúlkur mættu ákveðnar til leiks í lokafjórðunginn og voru ekki á því að leyfa heimastúlkum að sigla heim sigrinum líkt og þær gerðu um miðjan janúar, síðast þegar liðin mættust í DHL-höllinni. Þórsarar skoruðu fyrstu átta stig leikhlutans og staðan orðin 50-53. Erfiðlega gekk fyrir KR að finna leiðina að körfunni framan af í leikhlutanum og komu fyrstu stig KR ekki fyrr en á sjöundu mínútu hans og var þar að verki Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir. Á eftir fylgdu tveir þristar frá Þorbjörgu Andreu Friðriksdóttur og KR skyndilega búið að endurheimta forystuna, 58-53. Eftir þetta létu þær forystuna ekki af hendi og sigruðu leikinn með þremur stigum, 63-60.
KR 63 – 60 Þór Akureyri (12-14, 13-18, 25-13, 13-15)
KR: Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 18 stig/18 fráköst/4 stoðsendingar, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 13 stig/12 fráköst, Rannveig Ólafsdóttir 12 stig/4 stoðsendingar, Perla Jóhannsdóttir 11 stig/7 fráköst, Margrét Blöndal 4 stig, Ásta Júlía Grímsdóttir 2 stig, Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir 2 stig, Marín Matthildur Jónsdóttir 1 stig, Ástrós Lena Ægisdóttir 0 stig, Ísabella Lena Borgarsdóttir 0 stig, Kristjana Pálsdóttir 0 stig, Emilia Bjarkar-Jónsdóttir 0 stig.
Þór Ak.: Bríet Lilja Sigurðardóttir 17 stig/10 fráköst, Fanney Lind G. Thomas 13 stig/5 fráköst/4 stoðsendingar, Rut Herner Konráðsdóttir 12 stig/10 fráköst, Helga Rut Hallgrímsdóttir 7 stig/16 fráköst, Heiða Hlín Björnsdóttir 7 stig, Jóhanna Rún Styrmisdóttir 4 stig/6 fráköst, Gréta Rún Árnadóttir 0 stig.