Leikjum í Dominos deild karla fer fækkandi með hækkandi sól og fór nítjánda umferð deildarinnar fram í kvöld. KR tók á móti Grindavík í leik sem gæti reynst mikilvægur í baráttu beggja liða í deildinni. KR gat komið níu heilum fingrum á deildarmeistaratitilinn með sigri en Grindavík þurfti lífsnauðsynlega á sigri að halda til að eiga von um sæti í úrslitakeppninni. Heimamenn höfðu unnið fimm leiki í röð í deild fyrir leikinn og Grindavík sýnt mikil batamerki frá áramótum.
Gestirnir voru mun sterkari aðilinn á upphafsmínútum leiksins, þeir réðu hraðanum og komust mjög auðveldlega í gegnum vörn KR. KR var hreinlega ekki mætt til leiks í fyrsta fjórðung. Þeir voru kærulausir með boltann og varnarleikur liðsins hrein hörmung. Þannig var staðan 6-11 eftir fimm mínútur, Finnur Freyr þjálfari KR tók leikhlé og tók upp Heimlich takið í von um að hnoða lífi í sitt lið.
Sóknarlega rankaði KR við sér við það en varnarlega var liðið í bölvuðu basli. Grindavík fékk fullt af auðveldum skotum en slök skotnýting þeirr hélt KR í leiknum. Góður endir Grindavíkur í fyrsta fjórðung kom muninum í tíu stig, 15-25 gestunum i vil.
Leikmenn KR vöknuðu aðeins í öðrum fjórðung, allavega nægilega mikið til að minnka muninn strax niður í fimm stig. KR var enþá að spila heldur illa en Grindavík var ekki að nýta sér það nægilega, sérstaklega þá í sókninni sem var hugmyndasnauð og endaði alltof oft í höndunum á Charles Garcia.
Grindvíkingar voru mjög ósáttir við hversu mikið leikmenn KR komust upp með a snertingu gegn Chuck Garcia. Svo mikið að í stöðunni 29-34 fékk Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur tæknivillu fyrir mótmæli. Sjálfsagt hafði hann eitthvað til síns máls en menn verða að halda ró sinni í þessari stöðu. KR náði eftir tæknivilluna að jafna leikinn og þannig var staðan þegar liðin héldu til hálfleiks. Rándýrt hjá Grindavík en það hefði ekki verið ósanngjarnt hefðu þeir farið með forustu inní þriðja fjórðung.
Barátta þeirra Craion í fyrri hálfleik var í raun það eina áhugaverða úr fyrri hálfleiknum. Michael Craion var kominn með tvöfalda tvennu í hálfleik með 12 stig og 11 fráköst, svipað og Chuck Garcia 13 stig og 11 fráköst. Þá var eins og það væri búið að færa þriggja stiga línuna á vellinum því hvorugt liðið hitti þriggja stiga skoti í fyrri hálfleik og það í ellefu tilraunum.
Heimamenn áttu fyrstu stig seinni hálfleiksins og komust þar með yfir í fyrsta skiptið í leiknum. Þriðja leikhluta verður ekki minnst fyrir fallegan körfubolta og skemmtun. Hann var drepleiðilegur, dómararnir náðu full mikla athygli með skrýtnum dómum og bæði lið í fyrsta gír. KR náði þó í fleiri stig og komust 61-52 yfir fyrir lokaleikhlutann. Grindavík var með 27 stig samanlagt í öðrum og þriðja leikhluta og voru algjörlega úti á þekju.
Vert er að segja frá furðulegasta dómi sem undirritaður hefur orðið vitni af, Ægir Þór stal þá boltanum og fór í hraðaupphlaup. Á hælum hans var Jón Axel Guðmundsson sem náði honum og varði boltann listilega í spjaldið. Dómari leiksins sá eitthvað athugavert og dæmdi villu þó allir á vellinum hefði séð að Jón Axel náði bara boltanum. Vondur dómur og virtist einungis vera dæmdur af líkum. Allir geta átt vondan dag og þetta var heldur betur vondi dagur dómara þessa leiks, þeir voru í takt við leikinn þ.e. lélegir.
Heimamenn byrjuðu loka fjórðunginn með tíu fyrstu stigunum og gengu þar með endanlega frá leiknum. Munurinn á liðunum skyndilega orðinn um tuttugu stig og bæði lið farin að hugsa að næstu leikjum. Lokastaðan 79-60 KR í vil sem virtist þurfa að hafa heldur lítið fyrir þessum sigri.
Hjá KR var Michael Craion að vanda frábær, með 18 stig og 15 fráköst, einnig var Ægir Þór drjúgur og steig upp þegar þurfti. Ómar Sævarsson var besti maður Grindavíkur með 12 stig, 14 fráköst og eini leikmaður Grindavíkur sem sýndi alvöru baráttu. Charles Garcia var einnig með 21 stig og 14 fráköst en þurfti 21 skot til þess. Flæði og boltahreyfing Grindavíkur strandaði ítrekað á honum auk þess sem orka hans fór ansi mikið í að ræða við dómara leiksins.
Grindavík átti líklega sinn allra daprasta leik á tímabilinu. Áhugaleysið virtist algjört og gott ef ungmennafélagsandinn hafi ekki verið of sterkur, snýst bara um að vera með og úrslitin aukaatriði. Allavega hafði liðið aldrei nokkra trú á því að þeir færu út á Reykjanesbrautina með sigur. Sóknarleikur liðsins var góður í fyrsta leik en ekki til stðar á öðrum tímum. Grindavík fékk einungis sex stig af bekknum sem er alls ekki vænlegt til árangurs á móti jafn góðu liði og KR.
KR setti ekki í gírinn fyrir enn í fjórða leikhluta og valtaði þá yfir Grindavík. Aftur á móti var liðið úti á þekju í fyrri hálfleik og við réttar aðstæður hefði munurinn verið um tuttugu stig Grindavík í vil. Varnarleikur liðsins gerði gæfumuninn en hann var arfaslakur í fyrri hálfleik. KR seiglan náði enn og aftur að knýja fram sigur og geta þeir verið ánægðir með það.
Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson – @Olithorj
Myndir / Bára Dröfn