ÍR kom í heimsókn til Egilsstaða í kvöld og atti kappi við Hattarmenn. Leikurinn var nokkuð mikilvægur fyrir bæði lið þar sem ÍR-ingar þurftu stig til að losa sig við falldrauginn og eiga möguleika á úrslitakeppnissæti. Heimamenn eru hinsvegar í bullandi fallbaráttu og þurftu nauðsynlega á sigri að til að eiga séns á sæti í efstu deild að ári, auk þess þurftu þeir helst að vinna með meira en fimmtán stiga mun til að hafa forskot innbyrðis á ÍR.
Fyrsti leikhluti var jafn og ágætlega spilaður af beggja hálfu en heimamenn voru með örlítið forskot lengst af, en gestirnir náðu að komast yfir undir lok leikhlutans og leiddu með tveim stigum þegar flautan gall 17-19.
Í öðrum leikhluta mættu heimamenn mun sterkari til leiks og voru mun betri á báðum endum vallarinns og með þá Tobin og Mirko í broddi fylkinga unnu þeir leikhlutann 32-16 og staðan í hálfleik 49-35.
ÍR setti upp svæðisvörn í upphafi seinni hálfleiks sem gekk ekki sem skildi og Tobin opnaði seinni hálfleikinn á tveimur þristum í röð og Hattarar héldu síðan uppteknum hætti og juku forskot sitt enn frekar og voru tuttugu stigum yfir fyrir síðasta leikhlutann 75-55.
Síðasti leikhlutinn var nú heldur bragðdaufur og lítið um hágæða körfuknattleik af beggja hálfu. Bæði lið þvinguðu helst til mikið sóknarleiga og gerðu mikið af mistökum og greinilegt að bæði lið voru að hugsa mikið um forskotið innbyrðis. Gestunum tókst þó ekki að minnka muninn og Höttur landaði sigri með 23 stiga mun 93-70.
Höttur sem nú hefur sex stig, eygir því enn von um sæti meðal hinna bestu að ári en eiga þó verðugt verkefni fyrir höndum þar sem þeir eiga eftir að mæta Stjörnunni úti, Þór heima og Haukum úti. ÍR hafa hins vegar tíu stig og eiga eftir að mæta Snæfelli heima, Keflavík úti og KR heima. Tobin var sem fyrr leiðtogi sinna manna og smellti í þriðju þrennu sína í vetur 42 stig, 14 fráköst og 10 stoðsendingar. Mirko var einnig gríðar sterkur með 19 stig, 15 fráköst og 4 stoðsendingar.
Hjá ÍR, sem greinilega saknar Jonathan Mitchell mikið, var Björgvin með 16 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar, Vilhjálmur með 14 stig, 6 fráköst og Eyjólfur með 12 stig og 4 fráköst.
Viðar Örn var sáttur við sína menn ,,við héldum alltaf áfram og bættum hægt og rólega í forystuna. Mér fannst við hafa stjórn á leiknum allan tímann og spiluðum vel sem lið höfum aldrei verið með fleiri stoðsendingar í vetur (23)“.
Frosti Sigurðarson
Höttur-ÍR 93-70 (17-19, 32-16, 26-20, 18-15)
Höttur: Tobin Carberry 42/14 fráköst/10 stoðsendingar, Mirko Stefán Virijevic 19/15 fráköst, Hreinn Gunnar Birgisson 9/6 fráköst, Eysteinn Bjarni Ævarsson 9, Ásmundur Hrafn Magnússon 9, Sigmar Hákonarson 3/6 stoðsendingar, Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar 2, Brynjar Snær Grétarsson 0, Ívar Karl Hafliðason 0, Hallmar Hallsson 0, Gísli Þórarinn Hallsson 0, Einar Bjarni Helgason 0.
ÍR: Björgvin Hafþór Ríkharðsson 16/6 fráköst/5 stoðsendingar, Vilhjálmur Theodór Jónsson 14/6 fráköst, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 12/4 fráköst, Daði Berg Grétarsson 8, Sveinbjörn Claessen 7/5 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 6/4 fráköst, Sæþór Elmar Kristjánsson 5, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 1, Trausti Eiríksson 1/5 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 0.
Myndasafn: Árni Berg Kárason