Valur tók á móti Keflavík í Domino's deild kvenna í afar mikilvægum leik fyrir bæði lið. Fyrir leikinn sátu liðin í 4. og 5. sæti og ljóst að um baráttu milli beggja liða um að festa sig í sessi meðal fjögurra efstu liðanna fyrir úrslitakeppnina í vor.
Keflvíkingar byrjuðu á að skora fyrstu 2 stigin en svo ekki söguna meir þar til á þriðju mínútu þegar Sverrir Þór Sverrisson tók leikhlé, en þá höfðu Valskonur skorað 10 stig í röð. Hlutur gestanna vænkaðist örlítið við það en varnarleikur þeirra var í stökustu vandræðum með Karisma Chapman hjá Val en hún skoraði körfur af öllum stærðum og gerðum.
Keflvíkingum tókst í tvígang að minnka muninn niður í 2 stig í fyrri hálfleik en náðu aldrei að smokra sér framúr. Valskonum tókst alltaf að finna glufu í vörn Keflavíkur. Stigalaus, rúmlega tveggja mínútna langur kafla hjá Keflavík í lok fyrri hálfleiks varð til þess að heimaliðið náði 13 stiga forystu fyrir hálfleik.
Gestirnir mættu örlítið sprækari til leiks í upphafi seinni hálfleiks og náðu enn eina ferðina að minnka muninn niður í 2 stig eftir rúmar 4 mínútur. Fjórir tapaðir boltar og önnur slök ákvarðanataka í sóknarleik Keflavíkur varð svo til þess að munurinn jókst aftur eftir stórskotahríð Vals á sama tíma.
Að því sögðu var ekki aftur snúið. Valur viðhélt 5-10 stiga mun það sem eftir lifði leiks og innsiglaði svo afar mikilvægan sigur, 90-73.
Karisma Chapman var nánast óstöðvandi fyrir Val og skoraði 41 stig, tók 16 fráköst og gaf 7 stoðsendingar í leiknum auk þess að stela 6 boltum. Framlagsstuðull hennar færir sönnur fyrir því en hún lauk leik með 53 punkta! Hallveig Jónsdóttir setti 15 stig og Ragnheiður Benónísdóttir bætti við 14 og tók þar að auki 17 fráköst.
Hjá Keflavík var Thelma Dís Ágústsdóttir atkvæðamest með 17 stig. Nýr erlendur leikmaður Keflavíkur, WNBA leikmaðurinn Monica Wright kom næst með 13 stig en hún var ekki sannfærandi í leik sínum í kvöld. Henni á hins vegar vafalítið eftir að vaxa ásmeginn í næstum leikjum. Sem stendur er Sverrir að skipta mínútunum jafnt á milli hennar og Melissu Zornig. Ungur og mjög efnilegur leikmaður Keflavíkur, Emelía Ósk Gunnarsdóttir kom næst með 12 stig á 25 mínútum. Hún er aðeins 18 ára sú og á sér bjarta framtíð í körfuboltanum.
Valur stökk upp í þriðja sæti deildarinnar með 20 stig með sigrinum á Keflavík en Grindavík, sem sat hjá þessa umferð, kemur þar næst með 18 stig. Keflavík situr hins vegar sem fastast í því fimmta.
Valur-Keflavík 90-73 (22-20, 25-14, 17-22, 26-17)
Valur: Karisma Chapman 41/16 fráköst/7 stoðsendingar/6 stolnir, Hallveig Jónsdóttir 15/3 varin skot, Ragnheiður Benónísdóttir 14/17 fráköst/3 varin skot, Guðbjörg Sverrisdóttir 7, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 6, Bergþóra Holton Tómasdóttir 5, Margrét Ósk Einarsdóttir 2, Helga Þórsdóttir 0, Sóllilja Bjarnadóttir 0, Regína Ösp Guðmundsdóttir 0, Dagbjört Samúelsdóttir 0.
Keflavík: Thelma Dís Ágústsdóttir 17/5 fráköst, Monica Wright 13/11 fráköst, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 12, Sandra Lind Þrastardóttir 9/7 fráköst, Marín Laufey Davíðsdóttir 6, Irena Sól Jónsdóttir 6, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 6/6 fráköst, Melissa Zornig 4, Katla Rún Garðarsdóttir 0, Þóranna Kika Hodge-Carr 0, Elfa Falsdottir 0, Bríet Sif Hinriksdóttir 0.
Mynd: Hallveig Jónsdóttir átti góðan leik fyrir Val. (HT)