spot_img
HomeFréttirFjölnir sigldi heim tveimur stigum eftir slaka byrjun

Fjölnir sigldi heim tveimur stigum eftir slaka byrjun

Fjölnismenn tryggðu sér tvö mikilvæg stig í baráttunni í efri hluta 1. deildar karla þegar þeir sigruðu KFÍ í Dalhúsum í kvöld. Gestirnir frá Ísafirði byrjuðu leikinn af krafti og höfðu náð 9 stiga forystu eftir þriggja mínútna leik, 3-12. Birgir Björn Pétursson spilaði vel fyrir KFÍ, var komin með 7 stig og 3 fráköst á þessum upphafsmínútum og Nebosja Knezevic bætti við 5 stigum fyrir Ísfirðinga. Sóknarleikur Fjölnismanna var ekki upp á marga fiska og gestirnir að sleppa of auðveldlega í gegnum vörnina.

Það var allt annað Fjölnislið sem mætti til leiks í öðrum leikhluta, varnarleikurinn var mun fastari og sóknarleikurinn markvissari. Bergþór Ægir Ríkharðsson var óstöðvandi og setti 14 stig fyrir Fjölni í fjórðungnum. Ísfirðingar áttu fá svör við spilamennsku heimamanna og eftir góðan fyrsta leikhluta, töpuðu þeir öðrum leikhluta 32-15. Fjölnismenn leiddu því í hálfleik með 9 stigum, 45-36.

Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson opnaði seinni hálfleik með fallegum þristi fyrir Fjölnismenn og Sindri Már Kárason fylgdi á eftir með tveimur stigum af vítalínunni, heimamenn komnir með 14 stiga forystu strax á upphafsmínútu þriðja leikhluta. Þeir héldu áfram að bæta í og leiddu með 21 stigi fyrir lokaleikhlutann. Garðar Sveinbjörnsson setti fyrstu stig Fjölnis í fjórða leikhluta en á eftir fylgdu 7 stig frá Nebosja Knezevic og tvö stig frá Nökkva Harðarsyni fyrir KFÍ. Ísfirðingar búnir að minnka muninn í 14 stig þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta og leikurinn því orðinn galopinn. Heimamenn tóku þá til sinna mála, skelltu í lás og neituðu að hleypa gestunum nær. Fjölnir landaði að lokum nokkuð öruggum 19 stiga sigri, 92-73.

Stigaskor Fjölnis dreifðist vel á milli leikmanna og komust nánast allir á blað í kvöld. Bergþór Ægir Ríkharðsson var þeirra stigahæstur með 25 stig og skotnýtingu upp á 87% í þriggja stiga skotum (6 af 7). Collin Anthony Pryor náði hinni frægu tvöföldu þrennu, skoraði 12 stig, tók 14 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

Hjá Ísfirðingum var Nebosja Knezevic allt í öllu, skilaði 31 stigi, 7 fráköstum og 6 stoðsendingum. Birgir Björn Pétursson var sterkur inni í teignum og reif niður 13 fráköst auk þess að skora 15 stig og Kjartan Helgi Steinþórsson setti 15 stig, þar af 9 stig undir lok leiksins.

Fjölnir 92 – 73 KFÍ (13-21, 32-15, 26-14, 21-23)

Fjölnir: Bergþór Ægir Ríkharðsson 25 stig, Collin Anthony Pryor 12 stig/14 fráköst/10 stoðsendingar, Sindri Már Kárason 9 stig/8 fráköst, Garðar Sveinbjörnsson 9 stig, Egill Egilsson 9 stig, Árni Elmar Hrafnsson 7 stig, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 6 stig/5 stoðsendingar, Róbert Sigurðsson 5 stig/6 fráköst, Valur Sigurðsson 4 stig, Þorgeir Freyr Gíslason 4 stig, Alexander Þór Hafþórsson 2 stig, Smári Hrafnsson 0 stig.

KFÍ: Nebosja Knezevic 31 stig/7 fráköst/6 stoðsendingar, Birgir Björn Pétursson 15 stig/13 fráköst, Kjartan Helgi Steinþórsson 15 stig, Nökkvi Harðarson 6 stig, Florijan Jovanov 4 stig, Daníel Freyr Friðriksson 2 stig, Gunnlaugur Gunnlaugsson 0 stig, Daníel Þór Midgley 0 stig, Rúnar Ingi Guðmundsson 0 stig, Helgi Hrafn Ólafsson 0 stig.

Myndir (Bára Dröfn)
 

Mynd: Bergþór Ægir gefur eina af fjórum stoðsendingum sínum í kvöld

Fréttir
- Auglýsing -