spot_img
HomeFréttirHörkuleikur þegar Stjarnan sótti sigur í Hólminn

Hörkuleikur þegar Stjarnan sótti sigur í Hólminn

Snæfell og Stjarnan buðu upp á gríðarlega skemmtilegan leik í Stykkishólmi í kvöld. Snæfellingar voru án Torfason bræðranna og munar um minna. Það var því mikil óvissa um hvernig leikurinn myndi spilast. Snæfell að koma úr hörmulegum leik á móti ÍR í síðustu umferð þar sem þeir gátu ekki neitt. Stjörnumenn hins vegar á góðu róli og horfa einbeittum augum að 2. sætinu í deildinni. 

 

Leikurinn byrjaði fjörlega og öllum að óvörum nema kannski liðinu sjálfu þá voru Snæfellingar mættir og létu eins og þeir kynnu að spila körfubolta. Barátta út um allan völl, menn að fleygja sér eftir boltum, fagna körfum og vinna saman – hrikalega er þetta falleg íþrótt. Þegar 1. leikhluti kláraðist voru heimamenn þremur stigum yfir 26 – 23. Sherrod Nigel Wright var að fara hamförum og hafði hann svör við öllum því sem þjálfarar og leikmenn Stjörnunnar settu upp á móti honum, það var ekki fyrr en þeir byrjuðu að berja vel á honum að það hægðist á honum. Draghaltur fór hann inn í hálfleikinn með 27 stig á bakinu. 

 

Þó svo að vel hafi verið barist í fyrri hálfleiknum þá voru liðin að skora mikið 53 – 48 var staðan fyrir Snæfell og allir glaðir í stúkunni nema fjórir Stjörnumenn sem fylgdu liðinu. Garðbæingar voru að fá mikið af stigum eftir sóknarfráköst og klafs en með smá heppni hefðu Hólmarar getað farið inn í hálfleikinn með stærri mun. Snæfellingar náðu mest 12 stiga mun í hálfleiknum en það afskrifar enginn Justin Shouse og félaga það er bara ekki hægt. Kanónur útum allan völl og þeir mættir 12 til leiks en Snæfellingar í vandræðum með að fylla á skýrsluna með 8 leikmenn, Ingi Þór er því miður skráður í KR og því ekki gjaldgengur. Það má segja að úthaldið hafi verið það sem felldi Snæfell í lok 3. leikhluta, hraðinn var mikill í leiknum og reyndu þeir að halda í við Stjörnuna eins og þeir gátu. Það tókst hins vegar ekki en verður að hrósa Hólmurum fyrir góða baráttu í leiknum. Leikurinn hefur verið vel uppsettur hjá liðinu og vissu menn hvers var ætlast til af þeim.
 
Þegar ellefu mínútur voru eftir af leiknum voru Garðbæingar komnir með sex stiga forskot og létu þeir það ekki af hendi þó svo að Hólmarar hefðu gert allt sitt. Með aðalskorara sinn á annari löppinni var það erfitt fyrir Snæfellinga að ná í skottið á Stjörnumönnum. Austin, Sigurður og Viktor reyndu að malda í móinn og með tveimur þristum hjá Þorbergi kom vonarneisti í fámennri stúkunni í Hólminum. Stjörnumenn náðu alltaf að skora og þegar þeir skoruðu í sex sóknum í röð voru Hólmarar að gera sér extra erfitt fyrir.  

Gamli Snæfellingurinn kom sá og sigraði eins og svo oft áður í Hólminum. Honum líður vel hérna og á margar góðar minningar á parketinu í Stykkishólmi, það sést mjög vel á leik hans í kvöld, þvílík lína hjá Justin 28/11/7 enginn tapaður bolti og 5/7 í þriggja WOW, félagi hans og samlandi skoraði 26 stig og tók 11 fráköst en hann þurfti að hafa fyrir öllum sínum stigum. Hjá Snæfell voru það þeir félagar Sherrod og Austin sem drógu vagninn en Sigurður og Viktor voru að setja skot þegar það þurfti.  

 

Eins og sagt var áðan, skemmtilegur og hraður leikur var spilaður í Hólminum í kvöld þar sem sigurinn hefði getað dottið báðu megin. Stjörnumenn fara himinlifandi yfir Vatnaleiðina í kvöld með tvö stig í farteskinu en Hólmarar svekkja sig í kvöld en byrja að undirbúa sig fyrir átökin á fimmtudaginn strax á morgun.

 

Myndasafn:  Sumarliði Ásgeirsson

 

Snæfell-Stjarnan 94-102 (26-23, 27-25, 24-33, 17-21)
Snæfell: Sherrod Nigel Wright 33/7 fráköst/5 stoðsendingar, Austin Magnus Bracey 23/4 fráköst/5 stoðsendingar, Viktor Marínó Alexandersson 14, Sigurður Á. Þorvaldsson 14/7 fráköst/3 varin skot, Þorbergur Helgi Sæþórsson 8, Jóhann Kristófer Sævarsson 2, Baldur Þorleifsson 0, Jón Páll Gunnarsson 0. 
Stjarnan: Justin Shouse 28/11 fráköst/7 stoðsendingar, Al'lonzo Coleman 26/11 fráköst, Marvin Valdimarsson 13/6 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 12/5 fráköst/5 stoðsendingar, Tómas Þórður Hilmarsson 10/5 fráköst, Ágúst Angantýsson 6/4 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 5, Magnús Bjarki Guðmundsson 2, Óskar Þór Þorsteinsson 0, Ragnar Björgvin Tómasson 0, Grímkell Orri Sigurþórsson 0, Sæmundur Valdimarsson 0.

 

 

Fréttir
- Auglýsing -