spot_img
HomeFréttirUndir 15 ára drengir unnu til bronsverðlauna á Copenhagen Invitational

Undir 15 ára drengir unnu til bronsverðlauna á Copenhagen Invitational

12 íslenskir körfuboltadrengir fæddir árið 2008 tóku um helgina þátt á Copenhagen Invitational mótinu í Danmörku. Leifur Steinn Árnason þjálfari Stjörnunnar valdi liðið en í hópnum voru Stjörnumennirnir Dagur Snorri Þórsson, Jakob Kári Leifsson, Jón Kári Smith, Marinó Gregers Oddgeirsson, Pétur Harðarson og Viktor Máni Ólafsson ásamt þeim Bóasi Unnarssyni (Keflavík), Hannesi Gunnlaugssyni (ÍR), Jóni Árna Gylfasyni (Skallagrími), Lárusi Grétari Ólafssyni (KR), Patrik Joe Birmingham (Njarðvík) og Sturlu Böðvarssyni (Snæfelli).

Alls tóku 16 lið þátt flokki U15 KK frá ýmsum löndum en íslensku strákarnir léku í riðli með danska landsliðinu, Top Sport School frá Belgíu og sænska liðinu Södertälje. Fyrsti leikur liðsins var á föstudagsmorgninum gegn dönunum og vannst sá leikur örugglega 75-44. Síðar sama dag var leikið gegn belgíska liðinu sem hafði farið létt með Södertälje um morguninn. Eftir góða byrjun íslenska liðsins náðu Belgarnir undirtökunum í leiknum og stóðu af sér áhlaup íslenska liðsins og varð niðurstaðan 71-67 fyrir Top Sport School í mjög spennandi leik.

Eftir fyrstu tvær umferðirnar var staðan í riðlinum þannig að Belgarnir voru með tvo sigra, íslenska og danska liðið með sitthvorn sigurinn og Södertälje án sigurs. Til að komast í undanúrslitin þurfti að vinna riðilinn og voru Belgarnir því í góðri stöðu til að tryggja efsta sætið fyrir lokaumferðina að morgni þjóðhátíðardagsins. Svo fór þó ekki því að á meðan Íslensku strákarnir unnu 102-45 stórsigur á Södertälje tóku Danirnir þátt í 17. júní hátíðarhöldunum með því að vinna Belgana 50-48 og sendu íslenska liðið í undanúrslit þar sem það stóð best í innbyrðisleikjum þessara þriggja liða. Leikurinn við Södertälje var þó íslenska liðinu dýr þar sem Patrik meiddist á ökla og Lárus handleggsbrotnaði.

Það var því ekki fullmannað lið sem mætti til leiks í undanúrslitunum en þar mættu strákarnir hávöxnu og vel spilandi U15 landsliði Hollands. Hollendingarnir höfðu unnið sína leiki með missannfærandi hætti í riðlakeppninni en þeir hittu hins vegar á góðan leik á móti íslenska liðinu og höfðu 67-51 sigur.

Í leiknum um bronsið beið svo ísraelska liðið Hapoel Galil-elion. Ísraelarnir höfðu unnið sinn riðil nokkuð örugglega en köstuðu svo frá sér góðri stöðu í undanúrslitunum gegn sigurvegurum síðasta árs í lettneska liðinu Gulbene. Patrik snéri aftur í liðið fyrir leikinn og Lárus mætti með gifsið á bekkinn. Íslendingarnir byrjuðu af miklum krafti og leiddu 15-7 eftir fyrsta leikhluta og 37-18 í hálfleik. Ísraelunum gekk betur að skora í seinni hálfleik og varð munurinn minnst 10 stig seint í þriðja leikhluta. Okkar menn vörðust áhlaupinu og sigldu heim glæsilegum 71-52 sigri og tryggðu verðlaunasæti.

Hollenska liðið stóð að lokum uppi sem sigurvegari U15 KK mótsins en vann liðið öruggan 68-38 sigur á Gulbene í úrslitaleiknum.

Sturla Böðvarsson var valinn í fimm manna úrvalslið mótsins ásamt tveimur leikmönnum Gulbene, einum leikmanni hollenska liðsins og einum leikmanni þess ísraeska. Stigaskor íslenska liðsins dreifðist ágætlega en liðið var með þrjá leikmenn meðal 50 stigahæstu leikmanna mótsins:

Nr 5 Pétur 96 stig
Nr 13 Sturla 67 stig
Nr 31 Jakob 43 stig

Myndasafn (Hörður Garðarsson)

Umfjöllun, myndir / Hörður Garðarsson

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -