Í kvöld áttust við Njarðvík og Haukar í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Leikurinn liður í 21. Umferð Domino´s deildar karla. Njarðvík í 7. sæti fyrir leikinn og nokkuð öruggt í því sæti en Haukar hinsvegar í baráttu um 4. sætið í deildinni, það síðasta sem gefur heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Haukar verið á miklu flugi að undanförnu og unnið síðustu sex leiki á meðan Njarðvík sem hefur verið án lykilleikmanna tapað síðustu tvem leikjum naumlega. Athygli vakti að hinn síungi Páll Kristinsson var í búning í kvöld í liði heimamanna en hann á að baki nokkuð marga leiki á fjölum gólfsins í Njarðvík.
1. leikhhluti var mjög hraður frá upphafi til enda. Haukur Óskarson var líflegur í liði gestanna en hann setti niður 7 fyrstu stig þeirra og kom þeim í 1-7. Varnarleikur heimamanna ekki upp á marga fiska til að byrja með og Haukar að finna góð skot. Í stöðunni 9-16 eftir flotta troðslu frá Brandon Mobley kviknaði á heimamönnum sem settu 9 stig í röð og komust yfir 18-16 þar sem Maciej Baginski setti niður tvær 3.stiga körfur með stuttu millibili. Jafnræði var á með liðunum út leikhlutann en Kristinn Marinós kom sterkur inn af bekknum fyrir Hauka og setti hann niður þrjár 3.stiga körfur á stuttum tíma og lokaði hann leikhlutanum þegar hann kom Haukum í 24-29 og þar við sat eftir fyrsta leikhluta.
Haukar tóku öll völd á leiknum í öðrum leikhluta. Sóknarleikur liðsins var hrikalega flottur þar sem mikill hreyfanleiki var á bæði mönnum og boltanum sem skilaði sér í opnum skotum sem þeir voru að setja. Hjálmar Stefánsson setti niður 10 fyrstu stig Hauka í leihlutanum þar af tvær flottar 3.stiga körfur. Að sama skapi voru heimamenn ekki að finna sig varnarlega né sóknarlega. Varnarlega alltof langt frá mönnum og sóknarlega var lítil hreyfing á boltanum sem snérist á tímabili bara um einstaklingas framtakið. Njarðvík settu aðeins 11 stig í leikhlutanum sem er ekki líklegt til árangurs. Haukar, með sjálfstraustið í botni og dyggilega studdir af sínum stuðningsmönnum, sigldu hægt og rólega frammúr og þegar leihlutanum lauk voru þeir komnir með 21. stigs forskot, staðan 35-56.
Atkvæðamestir hjá Njarðvík; Maciej Baginski með 11 stig, Jeremy Atkinson 10 stig/ 6 fráköst, Oddur Rúnar og Ólafur Helgi 5 stig hvor.
Hjá Haukum; Haukur Óskarsson 14 stig, Kristinn Marinós 11 stig, Hjálmar Stefánsson 10 stig/ 6 fráköst, Brandon Mobley 10 stig/ 4 fráköst.
Í byrjun 3. leikhluta skiptust liðin á að skora en í stöðunni 44-61 virtist eins og slökkt væri á Njarðvíkingum því að þeir settu ekki stig næstu 4. mínúturnar eða svo og hentu Haukar í 0-7 áhlaup á meðan. Njarðvík setti meira púður í varnarleikinn hjá sér og það skilaði sér í lok leikhlutans því þeir klóruðu aðeins í forskot Haukanna með 8-0 kafla og löguðu stöðuna í 60-75 að leikhlutanum loknum.
4. leikhluti var frábær skemmtun. Heimamenn mættu grimmir til leiks og héldu uppteknum hætti frá lokum 3. leikhluta. Varnarlega voru þeir mjög grimmir og mikil læti í þeim og klárt að þeir voru ekki búnir að gefast upp þó svo að brekkan væri mjög brött. Njarðvík náði með nokkrum góðum stoppum í vörninni og fínum körfum í sókninni að minnka muninn niður í 4 stig 79-83 þegar um mínúta var eftir en Jeremy Atkinson náði boltanum eftir klafs í teignum hjá Haukum og setti hann ofaní. Þar á undan hafði Adam Eiður kveikt von hjá heimamönnum með góðri 3.stiga körfu. Lengra komust þó heimamenn ekki því að þeir brutu þangað til að þeir settu Hauka á línuna þegar nokkrar sekúndur voru eftir. Brandon Mobley kláraði leikinn þar og setti niður tvö skot og kom Haukum í 79-85 og þar við sat. Kaflaskiptur leikur í Njarðvík í kvöld þar sem Haukar voru frábærir í öðrum leikhluta og lögðu grunnin að sigrinum. Njarðvíkingar gáfust aldrei upp og með smá heppni hefðu þeir geta stolið sigrinum.
Atkvæðamestir hjá Njarðvík Jeremy Atkinson 23 stig/ 11 fráköst /6 stoðsendingar/ 6 stolnir boltar, Maciej Baginski 20 stig/ 5 stoðsendingar, Hjörtur H. Einarsson 14 stig og Oddur Rúnar með 9 stig.
Hjá Haukum var Brandon Mobley með 21 stig/ 10 fráköst, Kristinn Marinós 18 stig (þar af 4 3.stiga körfur), Haukur Óskars 14 stig/ 5 fráköst, Finnur Atli 11 stig/ 8 fráköst/ 4 blokk, Hjámar Stefánsson 10 stig/ 7 fráköst, Kári Jónsson 8 stig/ 8 stoðsendingar.