spot_img
HomeFréttirKristó: Hefði tekið fyrsta flug heim í úrslitakeppnina

Kristó: Hefði tekið fyrsta flug heim í úrslitakeppnina

Furman Paladins voru slegnir út úr SoCon keppninni eftir 76-84 tap fyrir East Tennessee State í undanúrslitunum á sunnudaginn. Kristófer Acox átti góðan leik eða 17 stig og leiddi liðið með 11 fráköst. Karfan.is náði tali af Kristófer daginn eftir leikinn en hann var að vonum ósáttur með hlutskipti liðsins.

 

"Já, þetta var mjög svekkjandi. Þetta var þannig séð leikur sem hefði getað dottið báðum megin þar sem við unnum þá einu sinni í vetur og töpuðum í seinna skiptið. Þeir spiluðu bara betur en við í gær." 

 

East Tennessee State voru með yfirhöndina nánast alla leikinn og höfðu einfaldlega svör við öllu sem Furman kom með. "Þeir voru að hitta úr erfiðum skotum. Þetta er samt sem áður hörku lið og maður verður að gefa þeim kredit. Þeir eiga góðan möguleika á að vinna titilinn."

 

Kristófer var vongóður um að liðið færi alla leið þetta árið eftir að hafa tapað í úrslitaleik SoCon keppninnar í fyrra. "Mjög svekkjandi að missa af þessu gullna tækifæri á titlinum í ár. Ég hélt að þetta væri árið okkar."

 

Kristófer er að klára sitt þriðja ár með Furman og á þá eitt eftir. Hann segir skólann verða enn með sterkt lið á lokaári hans og það sé enn von. "Ég næ mér í hring áður en ég útskrifast. Það er klárt!"

 

Hvað tekur þá við núna? Ætlar Kristófer að koma til Íslands og spila með KR í úrslitakeppninni?

 

Kristófer skellir upp úr. "Ef það væri möguleiki hefði ég örugglega tekið fyrsta flug heim eftir leikinn [á sunnudaginn]. En það er vist búið að bjóða okkur á eitthvað post-season mót sem verður haldið núna eftir viku."

 

Hann segist persónulega hafa viljað sleppa við það en þjálfararnir hefðu leyft leikmönnunum að ráða hvort liðið tæki þátt eða ekki. Þetta sé frekar lítið mót og bara til að lengja tímabilið sem er orðið ansi langt nú þegar.

 

"Það er 'spring break' núna út vikuna, sem ég ætlaði bara að eyða með fjölskyldu og fá tíma til að recovera. Liðið ákvað á síðustu stundu að taka þátt þannig það verður fróðlegt að sjá hvernig það fer."

Fréttir
- Auglýsing -