Reykjavíkurslagurinn í lokaumferð Domino‘s deildar karla fór fram í Hertz-hellinum í kvöld þegar ÍR tók á móti KR. Lítið var undir fyrir bæði lið, KR-ingar búnir að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og ÍR sat áfram í 10. sæti deildarinnar óháð úrslitum kvöldsins.
Gestirnir úr Vesturbænum byrjuðu leikinn af krafti og höfðu skorað 7 stig eftir tæplega tveggja mínútna leik á meðan Breiðhyltingingar áttu enn eftir að koma boltanum ofan í körfuna. ÍR-ingar virtust einfaldlega ekki mættir til leiks, hvorki í vörn né sókn, enda var Borche Ilievski fljótur að taka leikhlé og reyna að stilla af leik sinna manna. Björgvin Hafþór Ríkharðsson kom ÍR-ingum á blað strax eftir leikhléið með að setja niður þrjú stig. ÍR-ingar lokuðu vel á sóknarleik KR í kjölfar leikhlésins og með góðum kafla náðu þeir forystu í stöðunni 13-12. KR-ingar vöknuðu við þetta af dvalanum og skoruðu næstu 11 stig leiksins. Þeir leiddu síðan með 6 stigum eftir fyrsta leikhluta, 17-23.
KR byrjaði annan leikhluta með látum og náði fljótlega 14 stiga forystu með tveimur þristum frá Helga Má Magnússyni og körfu frá Michael Craion. Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði leikhlutans og héldu KR-ingar til klefa í hálfleik með 11 stiga forystu, 37-48. Michael Craion var gríðarlega sterkur fyrir KR í fyrri hálfleik, skoraði 18 stig og tók 6 fráköst. Helgi Már Magnússon og Snorri Hrafnkelsson komu næst honum í stigaskori með 8 stig hvor og Pavel Ermolinskij var kominn með 7 stoðsendingar. Björgvin Hafþór Ríkharðsson og Sveinbjörn Claessen voru stigahæstir í liði ÍR í hálfleik með 7 stig hvor og Sæþór Elmar Kristjánsson með 6 stig. Trausti Eiríksson leiddi heimamenn í fráköstum með 6 fráköst.
Darri Hilmarsson opnaði seinni hálfleik með þriggja stiga körfu fyrir KR en Vilhjálmur Theodór svaraði um hæl fyrir ÍR með tveimur stigum. Lítið gekk í sókninni hjá Breiðhyltingum í upphafi síðari hálfleiks og þau færi sem þeir náðu að skapa sér rötuðu sjaldnast rétta leið. Vesturbæingar röðuðu niður körfunum fyrir utan þriggja stiga línuna og höfðu náð 21 stigs forystu þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta. Eftirleikurinn var því nokkuð auðveldur fyrir gestina og sigruðu þeir leikinn með 27 stigum, 69-96.
Michael Craion átti góðan leik í liði KR og skilaði 32 stigum og 9 fráköstum á þeim tæpu 25 mínútum sem hann spilaði. Snorri Hrafnkelsson skoraði 12 stig, Darri Hilmarsson 11 stig og Björn Kristjánsson 10 stig auk þess sem þrír leikmenn voru með 8 stig. Allir leikmenn ÍR komu við sögu í leiknum í kvöld og dreifðist stigaskor nokkuð jafnt á milli manna. Sveinbjörn Claessen var stigahæstur með 11 stig og 8 fráköst, Sæþór Elmar Kristjánsson skoraði 10 stig og Björgvin Hafþór Ríkharðsson 8 stig.
ÍR 69 – 96 KR (17-23, 20-25, 16-32, 16-16)
ÍR: Sveinbjörn Claessen 11 stig/8 fráköst/4 stoðsendingar, Sæþór Elmar Kristjánsson 10 stig, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 8 stig, Vilhjálmur Theodór Jónsson 7 stig/6 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 7 stig, Trausti Eiríksson 6 stig/9 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 6 stig, Daði Berg Grétarsson 4 stig/4 stoðsendingar, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 4 stig, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 4 stig, Kristófer Fannar Stefánsson 2 stig, Haraldur Bjarni Davíðsson 0 stig.
KR: Michael Craion 32 stig/9 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 12 stig, Darri Hilmarsson 11 stig/8 fráköst, Björn Kristjánsson 10 stig/4 stoðsendingar, Pavel Ermolinskij 8 stig/11 fráköst/9 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 8 stig, Helgi Már Magnússon 8 stig, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 2 stig, Andrés Ísak Hlynsson 2 stig, Ólafur Þorri Sigurjónsson 2 stig, Vilhjálmur Kári Jensson 1 stig, Arnór Hermannsson 0 stig.
Mynd: KR tryggði sér deildarmeistaratitilinn á sunnudaginn síðasta með sigri á FSu og tók Brynjar Þór Björnsson við bikarnum eftir leikinn í kvöld.