Það var Reykjavíkurrimma í Hellinum í kvöld þegar KR heimsótti ÍR í Hellinn í kvöld. Fyrirfram var við því búist að KR myndi mæta til þess eins að fá afhentan deildarmeistaratitilinn, en KR nýtti tækifærið til að pústa sótinu úr díselvélinni. Karfan.is náði tali af Finni Stefánssyni, þjálfara KR eftir leikinn.
"Við byrjuðum sterkt og náðum strax yfirhöndinni en þeir hengu í okkur fram að hálfleik. Stungum þá svo af í byrjun þriðja."
KR-ingar höfðu ákveðið að ljúka tímabilinu af krafti þar sem í síðustu leikjum þeirra hafa þeir ekki verið að sýna sitt rétt andlit.
"Já, við erum búnir að vera flatir eftir Keflavíkurleikinn heima. Þá var deildarmeistaratitillinn gott sem kominn í hús og við duttum niðra hælana. Núna er úrslitakeppnin bara rétt handan við hornið og menn að gíra sig upp."
Breytti brottför Ægis frá liðinu svo miklu fyrir KR-inga að á það þurfi einhverjar á áherslubreytingar fyrir úrslitakeppnina?
"Við vorum orðnir flatir áður en hann fór en jú, engin spurning. Hlutir sem við þurfum að aðlaga bæði í vörn og sókn. Menn að færast til í hlutverkum og í stöðum á vellinum."
KR mætir Grindavík í fyrstu umferð. Verður það sýnd veiði en ekki gefin fyrir Vesturbæinga?
"Annað árið í röð sem við erum að fá gott Grindavíkurlið í 8-liða úrslitum. Þeir hafa ekki náð sér á strik í vetur en þarna eru refir sem hafa unnið titla og vita út á hvað þetta snýst. Þetta verður hörkurimma."
Bæði liðin passa ágætlega móti hvoru öðru að mati Finns. "Bæði lið með sterka menn undir körfunni og hávaxna bakverði. Þetta er náttúrulega fjórða úrslitakeppnin í röð sem þessi lið eru að mætast og þónokkrir leikmenn verið í öllum þessum rimmum."
Liðin ættu því að vita hvað bíður þeirra.