Næstkomandi fimmtudag hefst úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfubolta þetta árið. Þá fara af stað rimmur KR gegn Grindavík og Keflavíkur gegn Tindastól. Degi seinna, á föstudaginn, hefjast svo rimmur Stjörnunnar gegn Njarðvík og Hauka gegn Þór frá Þorlákshöfn.
Spennan er mikil og ekki síst hjá stuðningsmönnum liðanna. Því ákváðum við að, meðal annars, taka stöðuna á einum stuðningsmanni hvers liðs fyrir sig til þess að reyna sem best að fá stemminguna beint í æð.
Nú er komin röðin að stuðningsmanni liðs KR, Hilmari Konráðssyni, en lið hans mætir Grindavík í fyrsta leik í Reykjavík næstkomandi fimmtudag kl 19:15.
Það skal tekið fram að á myndinni hér að ofan er Hilmar nýbúinn að fanga einn, en myndin var tekin fljótlega eftir að KR vann síðasta titil á Króknum. Því um sannkallaðan KR fisk að ræða.
Hversu lengi hefur þú og afhverju fórst þú að standa við bak KR í körfubolta?
Ég er uppalinn Víkingur og spilaði í mörg ár með Víkingum. Ég flutti úr Fossvoginum á Túngötuna og síðan á Víðimel og keypti síðan íbúð í Skerjafirði. Þannig að ég hef verið hér nánast alla tíð í vesturbænum uppúr tvítugu nema núna bý ég í Garðabæ. Sonur minn fór að æfa fótbolta með KR 5 ára gamall og þá að sjálfsögðu fór ég að halda með honum og síðan skipti hann yfir í körfubolta um 11 ára aldur og síðan hef ég séð flesta leiki sem hann hefur spilað. Fljótlega sá ég að körfubolti var hin skemmtilegasta íþrótt þar sem 20 stiga forskot gat horfið á örskammri stundu og ein skipting gat breytt gangi leiksins úr tapi í sigur. Eftir að hafa kynnst öllu því góða fólki sem vinnur óeigingjart starf í kringum körfuboltadeild KR þá hef ég breyst í einlægan stuðningsmann KR í körfubolta.
Hver er uppáhalds minnig þín frá KR leik?
Uppáhalds minningin er þegar KR vann gríðarlega gott lið Grindavíkur í oddaleik vorið 2009 um titilinn og Helgi Jónas tók ekki skot sem gat tryggt Grindavík sigurinn þegar nokkrar sekundur voru til loka leiks. Ótrúlega skemmtilegur leikur.
Hver er þinn uppáhalds leikmaður í liðinu í dag og afhverju?
Það eru margir mjög góðir leikmenn í liðinu í dag og mjög ólíkir leikmenn sem ná mjög vel saman á vellinum. Minn uppáhaldsleikmaður er Darri Hilmarsson vegna þess að hann er mjög óeigingjarn leikmaður sem gerir aðra betri í kringum sig, sem ég met mjög mikils í fari körfuboltaleikmanns. Hann vinnur gríðarlega mikið fyrir liðið í vörn og sókn sem ekki mælist alltaf í tölfræðinni.
Hver er þinn "all-time " uppáhalds leikmaður og afhverju?
Ef við höldum okkur við Ísland þá er það Brenton Birmingham sem spilaði með Grindavík og Njarðvík. Hann var mjög óeigingjarn leikmaður sem gerði menn mun betri í kringum sig þegar hann spilaði. Mikill liðsmaður, topp spilari.
Hvernig metur þú þetta einvígi gegn GrindavíK?
Ég tel að Grindavík muni ekki gefa neitt og reyna að vinna hvern einasta leik í þessu einvígi. KRingar vita það og munu spila fast og reyna að keyra yfir Grindavík strax frá upphafi í hverjum leik. Það er stutt síðan Grindavík vann Íslandsmeistartitilinn tvö ár í röð og það lifir ennþá á því í minningunni. Mikið stolt býr í Grindavíkurliðinu og stuðningsmönnum þess. Þeir munu berjast til síðasta blóðdropa. Það verður ekkert vanmat hjá KR í þessu einvígi þó að Grindavíkurliðið hafi lent í 8 sæti.
Hverjir eru helstu styrkleikar Grindavíkur?
Grindavíkurliðið hefur verið að leika vel síðustu leiki í þessu móti. Tapa naumlega fyrir Tindastól og vinna Njarðvík. Styrkur Grindavíkurliðsins liggur í reynslu leikmanna eins og Ómari, Þorleifi og Jóhanni. Ómar hefur spilað best í vetur í liðinu að jafnaði og Þorleifur og Jóhann hafa verið að bæta sinn leik núna eftir áramót. Ungstirnið Jón Axel Guðmundsson verður spurningarmerkið í þessu einvígi, mun hann eiga frábæra séríu eða ekki? Byrjunarliðið er samkeppnishæft við öll önnur lið í deildinni en bekkurinn er þunn skipaður og þar liggur veikleiki Grindavíkurliðsins.
Hverjir eru helstu styrkleikar KR
Styrkur KRinga er liðsheildinn, 8 góðir leikmenn í liðinu. Sjálfstraust og sigurhefð fylgir þessu liði og alltaf er spilað til sigurs, tap er ekki valkostur. Ekki má gleyma þjálfaranum sem hefur náð með miklum metnaði og dug að stýra liðinu til sigurs um Íslandsmeistaratitilinn tvö ár í röð, auk fleiri titla.
Hvaða leikmaður KR er lykillinn að sigri í þessari rimmu?
Það er ómögulegt að svara þessari spurningu vegna þess að það getur verið hver sem er af byrjunarliðsmönnunm í liðinu. Allir geta stigið upp í þessari rimmu og orðið lykil leikmaður.
Hvernig á serían eftir að fara?
KR sigrar 3-1
Ef svart og hvítt blóð rynni þér ekki í æðum, hvaða liði hefðir þú haldið með þennan veturinn og afhverju?
Þorlákshöfn, frábær umgjörð utan um þetta lið, lítið bæjarfélag með stórt hjarta. Liðið er að toppa á réttum tíma og mun vinna Haukana 3-2 í hörkurimmu.