Næstkomandi fimmtudag hefst úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfubolta þetta árið. Þá fara af stað rimmur KR gegn Grindavík og Keflavíkur gegn Tindastól. Degi seinna, á föstudaginn, hefjast svo rimmur Stjörnunnar gegn Njarðvík og Hauka gegn Þór frá Þorlákshöfn.
Spennan er mikil og ekki síst hjá stuðningsmönnum liðanna. Því ákváðum við að, meðal annars, taka stöðuna á einum stuðningsmanni hvers liðs fyrir sig til þess að reyna sem best að fá stemminguna beint í æð.
Nú er komin röðin að stuðningsmanni liðs Grindavíkur, Gauta Dagbjartssyni, en lið hans mætir KR í fyrsta leik í Reykjavík næstkomandi fimmtudag kl 19:15.
Hversu lengi og afhverju fórst þú að standa við bak Grindavíkur í körfubolta?
Ég er náttúrlega búinn að halda með Grindavík síðan ég fattaði að Íþróttir væru stundaðar hér í Paradís. Ætli ég hafi ekki byrjað að æfa sjálfur um 6 ára aldur, orðinn 45 ára í dag og því myndu þetta teljast 39 ár. Af hverju er augljóst, héðan er ég og Grindavík er bara mitt lið svo einfalt er það.
Hverjar eru þínar fyrstu góðu minningar af því að vera stuðningsmaður Grindavíkur?
Fyrstu minningarnar tengjast nú fótbolta og að horfa á mína menn á gamla malarvellinum. Svo bættist í þetta körfuboltinn og öll súru töpin gegn Njarðvík og Keflavík sem var svo hægt og rólega snúið í verulega sæta sigra og mikið titlafár !!
Hver er (einn) þinn uppáhalds leikmaður í liðinu í dag og afhverju?
Minn uppáhalds leikmaður í dag er nú fyrirliðinn Lalli. Hann hefur ósjaldan gert mann brjálaðan yfir skotum sem ekki átti að taka en svo kvittað það með skotum sem átti heldur ekki að taka en fóru rétta leið. Ofboðslega mikill klúbb-maður, leiðtogi, mikill karakter og frábær leikmaður þegar sá gállinn er á honum. Svo gat hann líka troðið sem var ekki leiðinlegt. Nú banna ég honum að troða svo hann fari ekki með orku í vitleysu.
Hver er þinn "all-time" uppáhalds leikmaður og afhverju?
Þessari er eiginlega ekki hægt að svara því það eru svo margir sem hægt er að nefna. Ætla samt að nefna Begga (Bergur Hinriksson) Algjör stuðbolti og stemmningspjakkur með eitt fallegast skot sem í boði var. Eiginlega sorglegt hvað hann hætti snemma. Eins var ég alltaf skotinn í Guðlaugi Eyjólfssyni, fannst skotin hans svo flott líka. Ég er greinilega svona "sökker" fyrir flottum skotstíl Og svo allir hinir !!
Hvernig metur þú þetta einvígi gegn KR?
Ég met það þannig að KR-ingar eru klárlega sigurstranglegri vegna þess að þeir enduðu í fyrsta sæti sem virðist vera vegna þess að þeir eru búnir að vera bestir í vetur. Ég þekki engan utan Grindavíkur sem hefur trú á mínu liði og kann ég virkilega að meta það. Það þarf sjálfsagt engan sérfræðing til þess að meta það sem svo að Grindavík þurfi að eiga sína bestu leiki til þess að slá KR út en það er einmitt það sem að mínir stefna á að gera. Óvæntir hlutir hafa gerst áður og það er nú meira að segja þannig að það sem aldrei hefur gerst, getur alltaf gerst aftur??? Ég er semsagt með svona nokkuð kalt mat á þessari rimmu ??
Hverjir eru helstu styrkleikar KR?
Fyrir utan að vera eitt best mannaða liðið og verið saman í 200 ár og allir rosa duglegir að mæta á æfingar og voða góður andi þá eru þeir líka bara drullu góðir. Þeir eru góðir í flestum stöðum og sennilega þarf ekkert að ræða það neitt meira. Þeir eru hreint ágætir bara.
Hverjir eru helstu styrkleikar Grindavíkur?
Þar sem að okkar helstu styrkleikum hefur ekkert verið flaggað mikið í vetur tel ég að okkar helsti styrkleiki í þessari rimmu verði algjör, grjóthörð og massív samstaða. Að menn berjist hver fyrir annan og séu tilbúnir að láta lífið fyrir klúbbinn og okkar stuðningsmenn. Mæli samt ekki með andlátum. Og þar sem mínir menn koma algjörlega pressulausir í þessa rimmu held ég að auka styrkleiki verði bara skemmtun, hrein og klár.
Hvaða leikmaður Grindavíkur er lykillinn að sigri í þessari rimmu?
Líkamlega heilsa er einn af lykilþáttum og eigum við ekki að segja að það sé Garcia sem taki að sér binda þetta saman og sýni okkur ástæðuna fyrir því að við buðum honum hingað heim í dans. Hann rokkar þetta bara áfram.
Hvernig á serían eftir að fara?
Hún fer þannig að Grindavík vinnur.
Ef gula blóðið rynni þér ekki í æðum, hvaða liði hefðir þú haldið með þennan veturinn og afhverju?
Þessi er pínu skrýtin en ætli ég hefði ekki bara staðið með Njarðvíkingum vegna þess að ég get voðalega lítið kvartað undan þeim