spot_img
HomeFréttirIðnaðarsigur hjá Snæfelli

Iðnaðarsigur hjá Snæfelli

Í Stykkishólmi mættust Snæfell og Keflavík í alvöru leik. Fyrir leikinn voru Snæfell á toppnum ásamt Haukum með 36 stig og Keflavík í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni, með sigri gátu Keflvíkingar komist upp að hlið Grindavíkur.

 

Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega, þó svo að stigataflan hafi ekki verið á fullum snúning þá voru varnartilburðir Keflavíkur alveg til fyrirmyndar. Ungu stelpurnar í liðinu Elfa, Thelma og Emelía gáfu reynslumiklum leikmönnum Snæfells ekkert eftir. Þvældust fyrir og voru með dólg – stórt hrós til þeirra. Til að mynda var Thelma Dís með 21 stig og 11 fráköst, hreint út sagt frábær leikur hjá henni. Fyrsti leikhlutinn var mjög jafn og endaði hann 14 – 16 Keflavík í vil. Haiden Palmer var nokkrar sóknir að stilla miðið en hún var rosaleg í leiknum. Endaði leikinn með 38 stig, 15 fráköst og 9 stoðsendingar – þvílíkur leikur hjá henni eins og svo oft áður. 

 

Annar leikhluti var svipaður nema heimasæturnar voru þónokkuð betri, hittu betur og spiluðu fína vörn, þá sérstaklega á WNBA leikmann Keflavíkur, hana Monicu Wright. Snæfell skoraði 25 stig á móti 15 frá gestunum. Hólmarar áttu við það lúxusvandamál í kvöld að Haiden var funheit en aðrir leikmenn fyrir utan Berglindi áttu ekki sinn besta dag sóknarlega. Þær hljóta að vilja fá meira frá fleiri leikmönnum. Svipað var í gangi hjá Keflavík Sandra og Thelma og Emelía voru þær líflegustu, Sverrir hlýtur að vilja fá meira en 11 stig frá tveimur erlendum leikmönnum liðsins. 

 

Þriðji leikhlutinn var nokkuð jafn sem er ekki venjulegt fyrir leiki í Hólminum. Oftar en ekki slíta Snæfellsstelpur sig frá liðum í leikhlutanum. Keflvíkingar mega því vera stoltar að hafa haldið leiknum í járnum lengi vel. Í fjórða leikhluta voru það svo Snæfellingar sem gerðu endanlega út um leikinn. Það má eiginlega kalla sigurinn iðnaðarsigur vegna þess að Hólmarar voru ekki að spila sinn besta leik en að sama skapi leyfðu Keflvíkingar þeim það alls ekki. Gestirnir frá Keflavík voru ekki tilbúnar að stíga skrefið í þessum leik en það er á hreinu að þetta lið á eftir að vinna titla í framtíðinni. Leikurinn endaði með 21 stiga sigri Snæfells 80 – 59 og var eins og áður sagði nokkuð þægilegur þegar leið á leikinn. 

 

Nokkrir punktar um leikinn:
Snæfell tók 21 sóknarfrákast
Snæfell 88 skot á meðan Keflavík tók 58 skot. 
Keflavík vann baráttuna í fráköstunum 49 á móti 48 – en töpuðu með 21 stigi. 
Keflavík tapaði 27 bolta á meðan Snæfell tapaði aðeins 11.

 

Eftir leikinn er því staða liðanna óbreytt, Snæfell í efsta sætinu ásamt Haukum og Keflavík sitja eftir með sárt ennið í fimmta sætinu. Þær eiga þó ennþá möguleika á því að ná sæti í úrslitakeppninni. Ef þær spila með sömu hörku og í kvöld þá geta þær án efa náð þar inn. 

 

Myndasafn: Eyþór Benediktsson

Fréttir
- Auglýsing -