Í kvöld hefst úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfubolta þetta árið. Þá fara af stað rimmur KR gegn Grindavík og Keflavíkur gegn Tindastól. Á morgun, föstudag, hefjast svo rimmur Stjörnunnar gegn Njarðvík og Hauka gegn Þór frá Þorlákshöfn.
Spennan er mikil og ekki síst hjá stuðningsmönnum liðanna. Því ákváðum við að, meðal annars, taka stöðuna á einum stuðningsmanni hvers liðs fyrir sig til þess að reyna sem best að fá stemminguna beint í æð.
Nú er komin röðin að stuðningsmanni liðs Njarðvíkur, Sigurði Svanssyni, en lið hans mætir Stjörnunni í fyrsta leik í Ásgarði á morgun kl 19:15.
Hversu lengi og afhverju fórst þú að standa við bak Njarðvíkur í körfubolta?
Ég fæddist í Njarðvík og spilaði sjálfur í yngri flokkum félagsins bæði í körfubolta og fótbolta. Karfan hefur alltaf verið stór í Njarðvíkunum og allir fylgjast vel með henni og auðvitað ég líka.
Hverjar eru þínar fyrstu góðu minningar af því að vera stuðningsmaður Njarðvíkur?
Að sitja (standa) í Ljónagryfjunni stút fullri af stuðningsmönnum þar sem menn voru búnir að klifra upp á rimlana til þess að finna sér pláss og leikir sem voru háspenna/lífshætta er, var og verður alltaf mesta snilld í heimi.
Hver er (einn) þinn uppáhalds leikmaður í liðinu í dag og afhverju?
Ef ég þarf að taka einn leikmann út er það minn maður Ólafur Helgi Jónsson hann er svo mikill keppnismaður, gefur ekki tommu eftir og spilar fanta góða vörn og ég veit að hann verður vel gíraður í úrslitarkeppninni.
Hver er þinn "all-time" uppáhalds leikmaður og afhverju?
Ætli ég verði ekki að segja Marquise Simmons. Nei djók. Það eru mjög margir sem koma til greina þarna enda haugur af topp leikmönnum sem hafa spilað fyrir Njarðvíkurliðið í gegnum tíðina. En þarna vel ég Teit Örlygsson því hann var svo mikill winner og geggjaður körfuboltaleikmaður.
Hvernig metur þú þetta einvígi gegn Stjörnunni?
Þetta einvígi verður rosalegt og gæti vel farið í oddaleik eins og það var í fyrra. Mínir menn þurfa að taka sig saman í andlitinu ef þeir ætla sér áfram og er ég bjartsýnn á að það gerist.
Hverjir eru helstu styrkleikar Stjörnunnar?
Vörnin þeirra er gríðarlega sterk og hefur það sannað sig í vetur og svo hafa þeir flotta blöndu af allavegana vopnum í sókninni.
Hverjir eru helstu styrkleikar Njarðvíkur?
Bakverðir. Haugur af góðum bakvörðum. En Njarðvíkurliðið hefur ekki ennþá sýnt sitt rétta andlit í vetur og það kemur í úrslitakeppninni því þeir vita að sumrfrí er annars handan við hornið og það vill enginn fara strax í sumarfrí.
Hvaða leikmaður Njarðvíkur er lykillinn að sigri í þessari rimmu?
Liðsheildin. Það verða allir að vera rétt stilltir en það er söknuður í Loga Gunnarssyni. Þá kemur gamla góða „maður í manns stað“ klisjan og það verða allir að stíga upp.
Hvernig á serían eftir að fara?
Ég spái að sjálfsögðu mínum mönnum sigri í þessari seríu og það gæti farið í oddaleik. Fyrsti leikurinn er mikilvægur að stela heimavellinum þar sem þeir enduðu ofar í töflunni og ég verð mættur í stúkuna og mun öskra mína menn til sigurs. Spáum þessu bara 3-2 fyrir Njarðvík.
Ef grænt blóð rynni þér ekki í æðum, hvaða liði hefðir þú haldið með þennan veturinn og afhverju?
Ég er sjálfur skráður í ÍG í 2. deildinni og hef ekki spilað með þeim í vetur, það sést á stöðu þeirra í deildinni. En ég fann svolítið til með Hattarmönnum í vetur. Þeir voru alltaf í hörkuleikjum en niðurstaðan svekkjandi fall.