Sveinbjörn Claessen tók sér smá frí frá annríki lögmennskunnar og hennti í spá handa Karfan.is fyrir fyrstu umferð úrslitakeppninnar og úr varð hin mesta skemmtun eins og vitað er þegar Claessen er annars vegar.
KR – GRI
Það búast allir við sigri KR-inga og það verður raunin. Því má þó ekki gleyma að Grindvíkingar hafa Ómar innan sinna raða og mun frammistaða hans framar öðru valda því að Grindvíkingar koma til með að gefa KR-ingum hörkuleiki. Má heldur ekki gleyma að Þorleifur og Jóhann Árni eru enn með þótt líkamlegt ástand sé hugsanlega ekki jafngott og áður. Gæðin til staðar. Grindavík jafnar í leik tvö en ekki meira en það. Maður veðjar einfaldlega ekki á móti liði sem hefur Pavel Ermolinskij.
KR í fjórum.
STJA – NJA
Í mínum huga eigast hér við þau tvö lið sem hafa komið hvað mest á óvart í vetur m.t.t. stigatöflunnar. Áður en tímabilið hófst sá ég Stjörnuna ekki fyrir mér í öðru sæti. Hélt einhvern veginn að mómentið þeirra væri liðið, Shouse farinn að eldast, Kína-Jón farinn, Gústi hættur að geta troðið o.s.frv. Hafði heldur betur rangt fyrir mér því Justin aldrei verið betri ef eitthvað er, Kaninn flottur og íslensku gaurarnir sinnt sínu hlutverki mjög vel. Verður áhugavert að fylgjast með Tómasi Þórði. Hann er flottur.
Njarðvík vonbrigðislið deildarkeppninnar miðað við mannskap. Alveg klárt mál. Deildarkeppnin er aftur á móti að baki og ný keppni að hefjast. Þeim er nákvæmlega sama um það sem liðið er. Haukur Helgi alger lykill fyrir Njarðvík. Það þarf engan snilling til að sjá það. Magic og Oddur þurfa einnig að stíga upp til að Njarðvík eigi séns.
Miðað við spilamennskuna heilt yfir í vetur, sérstaklega síðustu umferðirnar, ættu bláir að klára þetta nema Haukur Helgi taki upp á því að skora 35+ í öllum leikjum. Þá er von.
Stjarnan í fjórum.
KEF – TINDA
Umræðan síðustu vikur hefur öll verið á þá leið að Keflavík sé sprungið, Tindastóll að spila sinn besta bolta í vetur og eigi greiða leið í undanúrslitin. Því er ég algerlega sammála. Alltof gott (og dýrt) lið hjá þeim Skagfirðingum til að gera eitthvað annað en að sigra þessa seríu. Eina von Keflavíkur á sigri felst í gæðablóðinu og yfirlögfræðingi Suðurnesjamanna, Sævari Sævarssyni. Galið að hann sé ekki í búningi. Sagt er að hann taki Oddfellow fram yfir boltann. Hann um það.
Stólar í þremur.
HAU – ÞÓR
Geggjuð rimma framundan. Treysti því að allir fimm leikirnir verði sýndir í beinni. Haukar á svokölluðu skriði undanfarið, enda unnið 8 leiki í röð í deildinni. Eru jafnframt með jafnbesta leikmann deildarinnar, Kára Jóns. Hrein unun að fylgjast með drengnum spila körfu.
Þórsarar hafa sýnt glimrandi spilamennsku í vetur og geta á góðum degi unnið öll lið deildarinnar. Ekki nægilega stabílír þó.
Alveg klárt að einvígið fari í oddaleik. Alveg pottþétt. Sömuleiðis fullljóst að oddaleikurinn ræðst af flautukörfu annars hvors liðsins eftir þrí- ef ekki fjórframlengdan leik. Annað tveggja gerist:
a) Ívar dustar rykið af Kristni Jónassyni, hugsanlega vegna meiðsla-/eða villuvandræða Kanans. Lögmaðurinn tippar honum gegnum gjörðina eftir að skot nafna hans Marinóssonar skríður uppúr. Ævintýri enn gerast!
b) Maður stóru leikjanna, Ragnar Bragason, klárar leikinn með flautuþristi í horninu eftir stoðsendingu frá Baldri Ragnarssyni yfir endilangan völlinn. Fá sér síðan kleinuhring að leik loknum.
Mín spá: 1×2.