spot_img
HomeFréttirHáspenna í Dalhúsum þegar Fjölnir tryggði sér 2. sætið

Háspenna í Dalhúsum þegar Fjölnir tryggði sér 2. sætið

Það var mikið undir þegar Fjölnir og Skallagrímur mættust í Dalhúsum í 1. deild karla í kvöld, 2. sætið í deildinni og heimavallaréttur í baráttunni um laust sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili. Liðin höfðu bæði att kappi í deild og bikar í vetur, þar sem Fjölnir hafði sigur í deildinni en Skallagrímur í bikarnum. Áhorfendur máttu því vonast eftir spennandi leik þar sem bæði lið væru tilbúin til að leggja allt undir til að ná sigri.

Jafnt var á með liðunum framan af í fyrsta leikhluta. Jean Cadet kveikti í sínum mönnum þegar hann kom Skallagrím yfir í stöðunni 16-17 með svakalegri troðslu og á eftir fylgdu 8 stig í röð frá Borgnesingum. Fjölnir tók þá leikhlé og greinilegt að Hjalti Vilhjálmsson var ekki parhrifinn af leik sinna manna síðustu mínútuna eða svo. Róbert Sigurðsson setti tvö stig fyrir Fjölni strax í kjölfar leikhlésins en fyrrnefndur Cadet var fljótur að svara fyrir Borgnesinga með alley-oop eftir sendingu Atla Aðalssteinssonar.

Fjölnismenn létu þessi tilþrif ekki slá sig út af laginu og með sjö stigum frá Hreiðari Bjarka Vilhjálmssyni náðu þeir að minnka muninn niður í tvö stig áður en fyrsta leikhluta lauk. Allt var í járnum í öðrum leikhluta og liðin skiptust á að hafa forystu. Cadet setti niður tvö víti á lokasekúndu fyrri hálfleiks og jafnaði stöðuna í 43-43.

Fjölnismenn voru sterkari aðilinn í þriðja leikhluta og sigu fram úr Borgnesingum. Þeir leiddu með 11 stigum fyrir lokaleikhlutann, 69-58. Egill Egilsson reyndist gömlu félögum sínum úr Borgarnesi erfiður í leiknum og hóf fjórða leikhluta á að setja niður einn af 7 þristum sínum í kvöld. Staðan orðin 72-58 og forysta heimamanna komin í 14 stig. Leikmenn Skallagríms voru ekki tilbúnir að gefast upp og náðu með mikilli baráttu að minnka muninn í eitt stig, 86-85, þegar 20 sekúndur voru eftir af leiknum. Nær komust þeir ekki og Fjölnir sigraði þennan hörkuspennandi leik með 4 stigum, 89-85.

Egill Egilsson var stigahæstur Fjölnismanna með 24 stig auk þess að taka 5 fráköst. Collin Anthony Pryor skoraði 23 stig, tók 14 fráköst og gaf 6 stoðsendingar og Róbert Sigurðsson skoraði 12 stig og gaf 5 stoðsendingar. Jean Rony Cadet var stigahæstur í liði gestanna, skoraði 29 stig og tók 15 fráköst. Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði 18 stig og Hamid Dicko bætti við 12 stigum.

Eftir úrslit kvöldsins er því ljóst að Fjölnir mun taka á móti ÍA og Valur á móti Skallagrími í úrslitakeppninni í 1. deild karla en þar berjast liðin sem lentu í 2.-5. sæti í deildinni um laust sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili.

Fjölnir 89 – 85 Skallagrímur (25-27, 19-16, 25-15, 20-27)

Fjölnir: Egill Egilsson 24 stig/5 fráköst, Collin Anthony Pryor 23 stig/14 fráköst/6 stoðsendingar, Róbert Sigurðsson 12 stig/5 stoðsendingar, Bergþór Ægir Ríkharðsson 10 stig, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 7 stig, Garðar Sveinbjörnsson 6 stig, Sindri Már Kárason 5 stig, Valur Sigurðsson 2 stig, Alexander Þór Hafþórsson 0 stig, Þorgeir Freyr Gíslason 0 stig, Árni Elmar Hrafnsson 0 stig, Helgi Hrafn Halldórsson 0 stig.

Skallagrímur: Jean Rony Cadet 29 stig/15 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 18 stig, Hamid Dicko 12 stig, Hafþór Ingi Gunnarsson 8 stig, Davíð Ásgeirsson 5 stig, Kristófer Gíslason 4 stig, Davíð Guðmundsson 3 stig, Kristján Örn Ómarsson 3 stig, Bjarni Guðmann Jónsson 3 stig, Atli Aðalsteinsson 0 stig, Hjalti Ásberg Þorleifsson 0 stig, Þorsteinn Þórarinsson 0 stig.

Myndir (Bára)

Fréttir
- Auglýsing -