Haukar urðu í kvöld deildarmeistarar í Dominos deild kvenna eftir sigur á Hamri 87-73 þar sem Haukar sýndu styrk sinn í lokinn og knúðu fram öruggan sigur. Mikið hefur gengið á hjá Haukum í vetur og var því þungu fargi af þeim létt þegar bikarinn var loks tryggður.
Haukum var spáð velgengni fyrir tímabilið en þá tóku þau Helena Sverrisdóttir, Ingvar Guðjónsson og Andri Kristinsson við stjörnupríddu liði þar sem stefnan var sett á titilinn stóra. Í byrjun mars ákváðu forsvarsmenn Hauka að leysa þá Ingvar og Andra frá störfum en samkvæmt heimildum Karfan.is voru hugsanlegir eftirmenn ekki tilbúnir til að taka við liðinu svo þeim Ingvari og Andra var boðið starfið aftur.
Andri Kristinsson var ekki klár í bátana og var Haukamaðurinn Henning Henningsson þá fengin sem aðstoðarþjálfari Ingvars sem tók boðinu að taka aftur við liðinu.
Karfan.is barst það til eyrna í kvöld að þegar Haukar lyfti titlinum í kvöld hafi Henning gengið með verðlaunapening sinn í stúkuna þar sem Andri fylgdist með sínu gamla liði. Henning gaf honum því næst verðlaunapeninginn fyrir framlag sitt til liðsins.
Höfðinglega gert hjá Henning sem hefur nú það verkefni að undirbúa liðið fyrir einvígi gegn Grindavík í úrslitakeppninni en Haukar féllu einmitt úr bikarnum gegn Grindavík og má því búast við hörkueinvígi.
Texti / Ólafur Þór Jónsson