Keflvíkingar eru á lífi í 8-liða úrslitum eftir sterkan 95-71 sigur á Tindastól í TM-Höllinni í Keflavík í kvöld. Stólarnir byrjuðu betur en það virtist koma við kauninn í heimamönnum sem eignuðu sér þrjá næstu leikhluta. Hill og Magnús Már Traustason fóru fyrir Keflvíkingum í dag en Darrel Lewis var beittastur gestanna sem hefðu þurft fjölbreyttara framlag til að komast í undanúrslitin þetta kvöldið.
Fjórði leikur liðanna er því staðreynd og bíður Keflvíkinga það verkefni að mæta í Síkið 28. mars næstkomandi og freista þess að næla sér þar í oddaleik. Með frammistöðu eins og í kvöld er það engin fjarstæða en Síkið er torsótt vígi eins og flestum ætti að vera orðið kunnugt.
Tindastólsmenn með Lewis í broddi fylkingar byrjuðu betur, bæði á pöllunum og á parketinu. Tindastóll opnaði 6-16 þar sem LewIs gerði hvað hann lysti og skellti niður þremur þristum í jafn mörgum tilraunum. Bæði lið hittu vel og því var fyrsti leikhluti fjörugur en þjálfarar liðanna vildu bersýnilega þéttari varnir því Tindastóll leiddi 25-31 eftir fyrsta leikhluta.
Heimamenn í Keflavík mættu með vel tennta vörn inn í annan leikhluta, skelltu saman í 17-1 sprett og komust í 44-38 eftir þrist frá Val Orra Valssyni en þeir Valur, Magnús Már og Reggie voru í bullandi yfirvinnu á þessu „rönni“ Keflavíkur og ekki laust við tilvistarkreppu í ranni Stólanna því Lewis virtist einn fær um að ógna Aðrir tóku seint við keflinu en Gurley komst smátt og smátt í takt en Keflavík vann leikhlutann 24-18.
Þrælflottur annar leikhluti hjá Keflavík og það mátti ekki minna vera eftir brösugt upphaf. Hill var með 14 stig og 9 fráköst hjá Keflavík í fyrri hálfleik og Magnús Már Traustason var með 13 stig og 4 fráköst. Hjá Tindastól var Lewis með 16 stig og 9 fráköst og Gurley 11.
Öflug vörn heimamanna hélt áfram í þriðja leikhluta og á sóknarendanum gerði Guðmundur Jónsson sín fyrstu stig með þrist og Magnús Már Traustason mátti ekki minni maður vera og splæsti í þrjá þrista í þriðja leikhluta fyrir Keflavík! Opnun þriðja hjá Keflavík var 11-0 og leikhlutann unnu þeir 27-14. Eftir að hafa fengið 31 stig á sig í fyrsta leikhluta fékk Keflavík bara 32 stig á sig í öðrum og þriðja með sterkum varnarleik en Stólarnir voru alltof einsleitir í sínum sóknaraðgerðum og var þar allt of mikið sett á herðar Lewis.
Menn voru aðeins farnir að pústa eftir 35 mínútna leik en Keflvíkingar áttu stemmninguna og því komst Tindastóll aldrei í það í fjórða leikhluta að ógna forystu heimamanna. Keflavíkurþristur þegar rúmar þrjár mínútur lifðu leiks afgreiddi svo dæmið endanlega og lokatölur 95-71 við glæsilega stemmningu í stúkunni þar sem stuðningssveitir beggja liða fá klapp á bakið.
Sterk frammistaða Keflvíkinga í kvöld og ekki ósennilegt að fyrir kvöldið hafi margir verið búnir að spá þeim í sumarfrí en sannast þá hið fornkveðna með þetta Keflavíkurlið að það eru fáir sem elska afskriftir jafn mikið og þeir.
Jerome Hill átti einn sinn besta leik á tímabilinu með 28 stig, 21 frákast og 4 stoðsendingar og þá var Magnús Már Traustason einnig að bjóða upp á hörku frammistöðu með 24 stig og 8 fráköst. Valur Orri og Reggie Dupree splæstu líka í sterka frammistöðu en hjá Tindastól var Lewis með 22 stig og 11 fráköst. Gurley bætti við 11 stigum og Viðar Ágústsson líka en í kvöld var þetta fremur einsleitur bolti hjá gestunum og því fagnaði Keflavíkurvörnin með því að halda Tindastól undir 20 stigum þrjá leikhluta í röð.
Liðin mætast aftur 28. mars á Sauðárkróki. Þar þurfa Keflvíkingar sigur til að ná í oddaleik en vinni Tindastóll eru þeir komnir í undanúrslit.