spot_img
HomeFréttirFjölnir slapp með skrekkinn í fyrsta leik gegn ÍA

Fjölnir slapp með skrekkinn í fyrsta leik gegn ÍA

Fjölnir og ÍA mættust í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum 1. deildar karla um sæti í úrvalsdeild að ári. Fyrirfram var viðbúið að Fjölnir yrði sterkari aðilinn í þessum leik, hafandi unnið 3 síðustu leiki í deildinni og síðustu 7 leiki á heimavelli. Skagamenn hins vegar voru seinir í gang á leiktíðinni en hafa verið að gíra sig upp nú fyrir úrslitakeppnina.

 

Fjölnir hafði undirtökin allan fyrri hálfleik þar sem þeir fengu að hlaupa sinn leik óáreittir en gestirnir á hælunum fyrstu 20 mínúturnar. Staðan í hálfleik var 45-36 fyrir Fjölni en mestur var munurinn 12 stig í fyrri hálfleik. Colin Pryor var allt í öllu hjá Fjölni í fyrri hálfleik en þeir spiluðu án Egils Egilssonar sem tognaði á ökkla á fyrstu mínútum leiksins.

 

Gestgjafarnir mættu flatir í seinni hálfleikinn og ÍA fékk að stjórna tempóinu. Sóknarspil Fjölnis var kærulaust og varnarleikurinn ekki til fyrirmyndar. Skagamenn hins vegar hertu sig upp og tóku fast á andstæðingum sínum, spiluðu harða vörn þó sóknarleikurinn hafi verið tilviljunarkenndur á köflum.

 

Með baráttu og fullmikilli gestrisni Fjölnismanna tókst Skagamönnum að minnka muninnn niður í 3 stig um miðjan þriðja hluta. Fjölnismenn skrúfuðu þá aftur á sig hausinn og fóru að spila eins og lið í toppsætum deildarinnar. 

 

Það sem eftir lifði leiks var hin mesta skemmtun þar sem bæði liði skiptust á körfum eins og bandóðir boxarar skiptast á höggum í hringnum. Áskell Jónsson var frábær fyrir gestina á kafla í seinni hálfleik þar sem ÍA komst yfir í fyrsta skiptið í leiknum. 

 

Í hnífjöfnum leik með 37 sekúndur eftir fór Garðar Sveinbjörsson á línuna og kom Fjölni 2 stigum yfir. Tapaður bolti á ögurstundu fyrir ÍA fylgdi svo í kjölfarið en Róbert Sigurðsson setti svo leikinn á ís með stökkskoti í næstu sókn. 

 

Fjölnismenn sluppu með skrekkinn og höfðu af 79-73 sigur og hafa nú yfirhöndina í viðureign liðanna 1-0.

 

Collin Pryor leiddi sína menn með 26 stig en hann brenndi aðeins af 2 af 13 skotum sínum í leiknum. Hjá ÍA var Sean Tate stigahæstur með 21 stig.

Fjölnir-ÍA 79-73 (26-22, 19-14, 17-22, 17-15)
Fjölnir: Collin Anthony Pryor 26/14 fráköst, Þorgeir Freyr Gíslason 12/6 fráköst, Garðar Sveinbjörnsson 11/5 fráköst, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 9, Róbert Sigurðsson 8/4 fráköst/7 stoðsendingar, Sindri Már Kárason 6/4 fráköst/5 varin skot, Valur Sigurðsson 3, Egill Egilsson 3, Bergþór Ægir Ríkharðsson 1/4 fráköst/5 stoðsendingar, Árni Elmar Hrafnsson 0, Alexander Þór Hafþórsson 0, Smári Hrafnsson 0.
ÍA: Sean Wesley Tate 21/6 fráköst, Áskell Jónsson 17/5 fráköst/5 stolnir, Fannar Freyr Helgason 14/10 fráköst/5 stoðsendingar, Steinar Aronsson 7, Ómar Örn Helgason 6, Jón Orri Kristjánsson 5/7 fráköst, Erlendur Þór Ottesen 3/8 fráköst, Þorsteinn Helgason 0, Þorleifur Baldvinsson 0, Ásbjörn Baldvinsson 0.

 

Myndasafn:  Hörður Tulinius

 

Mynd:  Róbert Sigurðsson skoraði afar mikilvæga körfu í lok leiksins sem nánast tryggði Fjölni sigurinn. (HT)

Fréttir
- Auglýsing -