Undanúrslit Dominos deildar karla hófust í kvöld með leik Hauka og Tindastóls. Liðin mættust tvisvar í deild á tímabilinu og höfðu Haukar sigur í báðum leikjunum. Þá hafa liðin mæst átta sinnum á síðustu tvem árum og hafa bæði lið unnið fjóra leiki. Því mátti búast við skemmtilegum leik þar sem líklegt væri að úrslitin myndu ráðast á loksmetrunum.
Hitinn var mikill í þéttsettum Ásgarði í Hafnarfirði í upphafi leiks og greinilegt að mikið væri í húfi. Bæði lið ætluðu greinilega að leggja áherslu á varnarleik liðanna og var baráttan allsráðandi. Tindastóll voru sterkari í upphafi leiks og komust skrefi á undan. Tindastóll settu þriggja stiga skotin sem Haukar hittu ekki og var þar helsti munurinn á liðunum í fyrsta leikhluta.
Að fyrsta fjórðungi loknum var staðan 14-19 gestunum í Tindastól í vil. Þá kom til endurtekin saga á Ásvöllum, stigataflan bilaði og fór nokkur tími í að koma henni aftur í stand. Verulega óheppilegt þar sem þetta er ekki í fyrsta skipti á þessu tímabili sem þetta gerist í húsinu.
Þetta virtist kæla niður leikmenn því ekkert stig var skorað á fyrstu tvem mínútunum í öðrum fjórðung. Tindastól var „aggresívari“ í öllum sínum aðgerðum og virtist það ekki henta Haukum sérstaklega vel. Mesta forysta Tindastóls var sjö stig um miðjan leikhluta.
Heimamenn voru ekki á þeim buxunum að gefast upp og þrátt fyrir dapra skotnýtingu náðu þeir nokkrum góðum sóknarfráköstum og fengu fleiri tækifæri sem þeir nýttu til að minnka forystuna í tvö stig.
Þegar öðrum fjórðung lauk var staðan 28-32 Tindastól í vil þar sem 14% þriggja stiga nýting Hauka var aðalmunurinn á liðunum. Spennustigið virtist hærra hjá Haukum þar sem þeir hittu illa úr opnum skotum og misstu nokkrum sinnum einbeitingu í varnarleiknum.
Heilt yfir var fyrri hálfleikur skrýtin, hraðin og takturinn í leiknum var misjafn sérstakur bæði vegna slakrar skotnýtingar auk þess sem dómarar og aðstandendur leiksins stoppuðu leikinn full oft.
Fjögurra stiga munur liðanna hélst áfram í þriðja fjórðung þar sem varnarleikur liðanna var verulega sterkur. Hvorugt liðið gaf færi á sér, þvingaði andstæðinginn í erfið skot og skotnýtingin eftir því.
Eftir því sem leið á fjórðunginn færðist stemmningin og augnablikið yfir til heimamanna og með 13-2 áhlaupi voru þeir komnir með forystuna. Tindastóll setti einungis fimm stig á síðustu fjórum mínútum leiksins og virtust þeir missa einbeitinguna og verða pirraðir fljótt. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 49-43 Haukum í vil og áttu bæði lið nokkuð mikið inni.
Það var svo Hjálmar Stefánsson sem ákvað að koma Haukum í góða forystu með fimm stigum í röð. Þannig voru Haukar komnir í tólf stiga forystu og stemmningin var gríðarleg. Þá var Jose Costa þjálfara Tindastóls nóg boðið og tók leikhlé.
Tindastóll vaknaði nokkuð við það á náðu góðum kafla, sérstaklega þar sem baráttan jókst og menn fóru í öll návígi að krafti. Stemmningin snerist í báðar áttir eftir því sem leið á fjórðunginn og náðu Sauðkrækingar til að mynda að minnka munin í fjögur stig með tvem þriggja stiga körfum í röð.
Því svöruðu heimamenn með stórri þriggja stiga körfu og tröllatroðslu frá Brandon Mobley. Tindastóll áttu ekki fleiri ása uppí erminni og Haukar höfðu á endanum góðan sigur 73-61. Varnarleikur Hauka í leiknum er helsta ástæða sigursins í kvölds en hann var gjörsamlega geggjaður.
Haukar voru mjög þolinmóðir og skynsamir sóknarlega í seinni hálfleik. Tindastóll reyndi mikið að tvöfalda á leikmenn Hauka sem opnaði fyrir aðra og biðu þeir yfirleitt eftir þessum varnaraðgerðum gestanna og uppskáru stig.
Erfitt er að taka einn útúr liði Hauka sem mann leiksins en þeir Brandon, Emil, Haukur, Kári og Haukur koma allir til greinar þar sem þeir spiluðu frábæra vörn og skiluðu fínu framlagi sóknarlega. Það þarf þó að taka fram framlag Hauks Stefánssonar sem kom inn af bekknum og átti stórar körfur auk þess að verja boltann frábærlega á stórum augnablikum.
Hjá Tindastól var Helgi Rafn besti leikmaðurinn mep 18 stig og 8 fráköst en hann reyndi einnig eins og hann gat að rífa liðið áfram en gat það ekki einn og einsamall. Einnig var Pétur Rúnar góður, steig upp á mikilvægum augnablikum en hvarf of mikið þar á milli.
Einvígi þeirra Myron Dempsey og Brandon Mobleys var sérstaklega eftirtektarvert í leiknum. Þeir eru álíka leikmenn, sterkir og góðir skotmenn. Þeir háðu marga hildina í kvöld í jöfnum bardaga.
Hrósa verður Skagfirðingum í kvöld og þeirra stuðningi. Það voru fleiri áhagendur Tindastóls á leiknum heldur en Hafnfirðingar þrátt fyrir 300 km keyrslu á milli heimavalla. Til hreinnar fyrirmyndar og geta gestirnir verið ánægðir með stuðninginn í kvöld.
Haukar eiga nú framundan ferðalag til Sauðárkróks og er klárt að rútuferðin verður mun skemmtilegri með 1-0 forystu á bakinu. Leikur kvöldsins var hin mesta skemmtun og gefur mjög fögur fyrirheit fyrir það sem framundan er í einvígi þessara liða.
Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson
Myndir / Axel Finnur Gylfason