Heimakonur höfðu sigur í fyrstu viðureign Skallagríms og KR í umspili um sæti í úrvalsdeild kvenna sem fram fór í Borgarnesi í kvöld. Skallagrímur náði yfirhöndinni strax í upphafi leiksins og lét forystuna aldrei af hendi þrátt fyrir mikla baráttu og góð áhlaup gestanna.
Erikka Banks opnaði leikinn fyrir Skallagrím þegar hún setti niður sniðskot og fékk víti að auki. Heimastúlkur virtust mæta tilbúnari til leiks og sóttu mun grimmar í fráköstin á upphafsmínútunum. Þær spiluðu stífa vörn á gestina og þröngvuðu þær í erfiðar sendingar. KR gekk illa að skapa sér færi inni í teignum í byrjun leiks og skot þeirra fyrir utan rötuðu fæst rétta leið. Hanna Þráinsdóttir kom Skallagrími 10 stigum yfir í stöðunni 13-3 um miðjan fyrsta leikhluta og útlitið ekki gott fyrir KR. Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir setti þá sinn annan þrist í leiknum fyrir gestina og Rannveig Ólafsdóttir bætti við þremur stigum strax í kjölfarið. Staðan orðin 13-9 og munurinn kominn niður í 4 stig.
KR byrjaði annan leikhluta vel og skoruðu fyrstu fimm stig hans, staðan orðin 24-22. Ástrós Lena Ægisdóttir kom sterk inn af bekknum hjá KR og tók þrjú sóknarfráköst auk þess að skora tvö stig og verja eitt skot á fyrstu tveimur mínútum leikhlutans. Aftur dróg í sundur með liðunum og náði Skallagrímur 8 stiga forystu með stigum frá Guðrúnu Ósk Ámundadóttur og Sólrúnu Sæmundsdóttur. KR gafst tækifæri á að jafna leikinn eftir að Perla Jóhannsdóttir og Kristbjörg Pálsdóttir skoruðu sinn þristinn hvor og minnkuðu muninn niður í 2 stig, en Skallagrímur reyndist sterkari aðilinn undir lok leikhlutans og leiddu heimakonur í hálfleik með 9 stigum, 41-32.
Gestirnir mættu beittir til leiks í seinni hálfleik og börðust vel en heimakonur náðu að standa það af sér og juku forskotið enn frekar. Skallagrímur leiddi með 15 stigum eftir þriðja leikhluta, 61-46. KR var komið í villu vandræði í seinni hálfleik, misstu Guðrúnu Gróu Þorsteinsdóttur útaf með fimm villur í upphafi þriðja leikhluta og Kristbjörg Pálsdóttir þurfti að víkja af velli um miðjan fjórða leikhluta. Eftirleikurinn nokkuð auðveldur fyrir Skallagrím sem landaði að lokum 10 stiga sigri, 79-69.
Kristrún Sigurjónsdóttir var stigahæst í liði Skallagríms með 21 stig og 6 fráköst, Erikka Banks skoraði 13 stig og tók 15 fráköst og Sólrún Sæmundsdóttir og Hanna Þráinsdóttir skoruðu 10 stig hvor.
Hjá KR voru Kristbjörg Pálsdóttir og Perla Jóhannsdóttir með 18 stig og 7 fráköst hvor og að auki var Perla með 5 stolna bolta. Rannveig Ólafsdóttir átti góðan leik og skoraði 15 stig og tók 10 fráköst fyrir KR.
Skallagrímur 79 – 69 KR (24-17, 17-15, 20-14, 18-23)
Skallagrímur: Kristrún Sigurjónsdóttir 21/6 fráköst, Erikka Banks 13/15 fráköst, Sólrún Sæmundsdóttir 10, Hanna Þráinsdóttir 10, Guðrún Ósk Ámundadóttir 9/5 fráköst, Ka-Deidre J. Simmons 8/7 fráköst/4 stoðsendingar, Þóra Kristín Jónsdóttir 8/5 fráköst/4 stolnir, Sigurbjörg Rós Sigurðardóttir0/7 fráköst, Edda Bára Árnadóttir 0, Melkorka Sól Pétursdóttir 0, Aníta Jasmín Finnsdóttir 0, Arna Hrönn Ámundadóttir 0.
KR: Kristbjörg Pálsdóttir 18/7 fráköst, Perla Jóhannsdóttir 18/7 fráköst/5 stolnir, Rannveig Ólafsdóttir 15/10 fráköst, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 6/6 stoðsendingar, Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir 4, Ástrós Lena Ægisdóttir 4/5 fráköst, Ásta Júlía Grímsdóttir 2, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 2, Kristjana Pálsdóttir 0, Margrét Blöndal 0, Veronika Sesselju-Lárusdóttir 0.
Myndir hér að neðan/ Ómar Örn Ragnarsson