Ólafur Ingi Styrmisson mun yfirgefa herbúðir Keflavíkur fyrir komandi leiktíð í Subway deild karla og ganga til liðs við Regis Rangers í bandaríska háskólaboltanum.
Regis University er staðsettur í höfuðborg Kóloradó ríkis Bandaríkjanna og leikur Rangers lið þeirra í annarri deild háskólaboltans. Ólafur Ingi er að upplagi úr Fjölni, en skipti fyrir síðasta tímabil yfir til Keflavíkur í Subway deildinni þar sem hann átti gott tímabil, skilaði 7 stigum, 4 fráköstum og stoðsendingu að meðaltali í leik. Þá hefur Ólafur verið hluti af öllum yngri landsliðum Íslands, en nú í sumar mun hann leika með undir 20 ára liði Íslands á NM og EM.