spot_img
HomeFréttirVörnin mun skera úr um þetta!

Vörnin mun skera úr um þetta!

Valur og Skallagrímur þurfa oddaleik til að útkljá hvort liðið mæti Fjölni í úrslitum 1. deildar þessa vertíðina en Borgnesingar jöfnuðu 2-2 gegn Val í kvöld með 78-71 sigri í Fjósinu. Finnur Jónsson þjálfari Skallagríms sagði við Karfan.is eftir leik að það yrði vörnin sem myndi skera úr um hvort liðið færi í úrslitaseríuna.

Jean Rony Cadet var með 26 stig, 24 fráköst, 5 stoðsendingar og 3 varin skot í liði Borgnesinga í kvöld en 10 af 12 liðsmönnum Skallagríms skoruðu í leiknum! Jamie Jamil Stewart Jr. var stigahæstur í liði Vals með 24 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. 

 

„Við spiluðum fantavörn og í raun Valsmenn líka, þetta eru allt hörkuleikir þar sem lítið er skorað, það er serían í hnotskurn,“ sagði Finnur og átti von á hinu sama í oddaleiknum sem fram fer að Hlíðarenda næsta sunnudag. 

 

„Ég reikna með að bæði lið muni spila fast og vörnin skeri úr um þetta. Oddaleikurinn er ekkert annað en bikarleikur og síðustu tveir leikir hafa verið bara bikarleikir hjá okkur þar sem við höfum verið með bakið uppi við vegg. Við erum ekki saddir og ætlum okkur að klára næsta leik líka,“ sagði Finnur en Skallagrímur er þar að glíma við erfiða tölfræði því það er ekki heiglum hent að lenda 2-0 undir í seríum og komast upp úr þeim.

 

„Mér er alveg sama um þá tölfræði, það er bara þannig. Fyrir mér segir sagan ekki neitt, liðin eru svipuð og staðan er jöfn.“

Myndasafn – Ómar Örn
 

Tölfræði leiksins

 

Myndir/ Ómar Örn Ragnarsson

Fréttir
- Auglýsing -