spot_img
HomeFréttirStefán Karel: Við ætlum okkur langt á næstu leiktíð

Stefán Karel: Við ætlum okkur langt á næstu leiktíð

Stefán Karel gekk í raðir ÍR-inga í gær og mun spila með liðinu næstu tvö árin. Nokkur önnur lið reyndu að tryggja sér starfskrafta Stefáns en hann valdi ÍR þar sem hann telur sig hafa mest svigrúm til að bæta sig og þroskast. Karfan.is heyrði í kauða stuttu eftir að hann skrifaði undir en hann segir tíma kominn til að rífa þennan gamla risa upp úr meðalmennskunni.

 

"Mér líst mjög vel á ÍR liðið og næstu leiktíð. Það er verið að setja meiri kraft í liðið og ætlum við okkur ekkert að vera í meðalmennsku. Við ætlum okkur langt á næstu leiktíð."

 

Stefán er að fara í skóla í borginni næsta haust eftir fjögur "frábær ár" eins og hann sagði sjálfur. "Ekkert nema gott að segja um alla hér [í Hólminum] en það er kominn tími til að prófa eitthvað annað."

 

Fleiri lið höfðu samband við Stefán en flestir voru hissa að hann væri ekki á leiðinni norður. Nýr formaður kkd. ÍR hefur vafalítið haft eitthvað með þetta að gera því hann er gamall Hólmari. "Auðvitað kom Kristján Pétur nálægt þessu. Ég hitti líka stjórnarmenn og talaði við leikmenn og allir töluðu rosa vel um klúbbinn."

 

Sterkar taugar hafa lengi verið milli Snæfells og ÍR í gegnum tíðina. Margir Hólmarar hafa spilað með liðinu í gegnum tíðina og á t.d. ein helsta vonarstjarna liðsins, Hákon Örn Hjálmarsson ættir að rekja þangnað. Spilaði það eitthvað inn í ákvörðun Stefáns?

 

"Það er rétt. Það eru sterkar taugar milli Snæfells og ÍR. En ég valdi ÍR því ég tel það vera stað til að þroskast og verða betri leikmaður. Hef mikið pláss til að bæta mig og hlakka ég til næstu verkefna."

Fréttir
- Auglýsing -