spot_img
HomeFréttirHaukar í dauðafæri að komast í úrslitin

Haukar í dauðafæri að komast í úrslitin

Sólin sýndi sig, vor í lofti og því fylgir úrslitakeppnin. Í þetta skipti voru það Haukar sem tóku á móti Tindastól í þriðja leik einvígisins um sæti í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn. Fyrri tveir leikirnir höfðu unnist á heimavelli í gríðarlegum baráttuleikjum þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en á lokamínútunum. Það sama var uppá teningnum í kvöld í frábærum körfuboltaleik.

 

Fyrsti fjórðungur var frábær skemmtun, bæði lið voru greinilega vel undirbúin því þau virtust hafa svör við sterkum varnarleik andstæðinganna. Varnarleikurinn var áfram frábær en aukin vídd í sóknarleiknum og frábær skotnýring jók stigaskorið frá síðustu leikjum, auk þess var hraðinn gríðarlegur í leiknum.

 

 

Emil Barja var í algjörum sérflokki í fyrsta leikhluta, var með helming stiga Hauka, með 100% skotnýtingu og þar af þrjú þriggja stiga skot. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 26-23 Haukum í vil og partýið rétt að byrja.

 

Harkan og baráttan jókst eftir því sem leið á hálfleikinn og þurfti meðal annars Hjálmar Stefánsson að yfirgefa salinn eftir að hafa fengið högg á andlitið. Leikurinn var verulega erfiður að dæma en dómaratríó leiksins flautaði kannski fullmikið sem hægði á leiknum.

 

Skotnýting Tindastóls fór þverrandi í öðrum fjórðung og var á tímabili eins og þeir gætu bara skotið þriggja stiga skotum. Það var þó algjörlega vegna þess að Haukar lokuðu algjörlega teignum og Tindastóll komst ekki lönd né strönd.

 

Haukar áttu heilt yfir einn af betri hálfleikum sínum í fyrri hálfleik þar sem sóknin var mjög sterk, vörnin í sérflokki og þeir fengu að stjórna leiknum algjörlega. Staðan í hálfleik 44-31 og leikurinn fullkomlega í höndum Hauka.

 

 

Stemmningin færðist yfir á gestina í upphafi þriðja fjórðungs þar sem Pétur Rúnar Birgisson tók leikinn yfir. Kauði setti átta stig á fyrstu mínútunum fyrir Tindastól og minnkaði munin í fjögur stig. Sjálfstraustið og augnablikið færðist yfir til Tindastóls í hálfleiknum sem hélt Haukum í níu stigum á sjö mínútum í fjórðungnum. Fyrir vikið komst Tindastóll inní leikinn og ævintýralegur „fade away“ þristur frá Helga Margeirssyni jafnaði leikinn fyrir lokafjórðunginn.

 

Varnarleikur Hauka mýktist fullmikið í þriðja fjórðung og fékk liðið þá á sig 28 stig. Tindastóll komst yfir fljótt í fjórða fjórðung með fimm stigum í röð. Haukar virtust vera orðnir pirraðir og lítið sem ekkert gekk upp.

 

Tindastóll náði ekki að gera sér mat úr þessu og munurinn varð aldrei meiri en sex stig. Því þurfti bara örlitla stemmningsbreytingu til að Haukar væru komnir yfir. Lokamínúturnar voru æsilegar og var spennan mikil.

 

Brandon Mobley og Kári Jónsson settu þá í gírinn og komu Haukum sjö stigum yfir þegar ein og hálf mínúta var eftir.  Forystuna gáfu þeir svo aldrei eftir þrátt fyrir tilraunir Tindastóls til að komast aftur í leikinn. Lokastaðan 89-81 Haukum í vil eftir hörkuleik þar sem betri ákvarðanir þeirra á lokamínútunum gerðu útslagið.

 

Maður leiksins var Brandon Mobley sem átti einn af sínum betri leikjum síðan hann kom til liðs við Hauka. Hann var með 23 stig og 13 fráköst, mörg af þessum fráköstum voru ekki auðfengin og var barátta hans til fyrirmyndar í dag. Emil Barja og Kári Jónsson voru að vanda sterkir fyrir Hauka og var framlag þeirra verulega mikilvægt.

 

Hjá Tindstól var Pétur Rúnar Birgisson manna bestur með 16 stig, 12 fráköst og steig upp þegar mest á reyndi í liðinu, Myron Dempsey var einnig góður með 21 stig. Liðið spilaði heilt yfir ekki eins sterkan varnarleik og áður og voru fljótir að bogna í sókninni þegar Haukar ýttu þeim úr sínum leik.

 

Fjórði leikurinn fer fram á þriðjudaginn í Síkinu á Sauðárkróki, það gæti orðið síðasti leikur Tindastóls á tímabilinu ef illa fer. Liðið tapar þó ekki mörgum leikjum þar og verður erfitt fyrir Hauka að mæta í þann leik og ætla að ná í sigur. Haukar eru aftur á móti í dauðafæri að komast í úrslitaeinvígið í fyrsta skipti í fjölmörg ár og munu sjálfsagt mæta hungraðir til leiks.

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

 

Myndir / Axel Finnur Gylfason

Fréttir
- Auglýsing -