spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur ÍR á Stjörnunni

Öruggur sigur ÍR á Stjörnunni

ÍR sótti sigur í Ásgarð í kvöld þegar liðið mætti Stjörnunni í unglingaflokki karla. Gestirnir byrjuðu leikinn betur og voru mun ákveðnari í sínum aðgerðum. Sigurkarl Róbert Jóhannesson opnaði leikinn fyrir ÍR-inga sem skoruðu 15 stig áður en Stjarnan svaraði fyrir sig. Stjarnan minnkaði muninn í 10 stig í stöðunni 7-17 með þremur stigum frá Emil Árnasyni. Jón Valgeir Tryggvason lokaði síðan fyrsta leikhluta með þriggja stiga körfu fyrir ÍR og gestirnir leiddu að honum loknum með 20 stigum, 10-30.

Heimamenn hresstust við í öðrum leikhluta og börðust um fráköstin og lausa bolta. Á sama tíma varð einstaklingsframtak meira áberandi í sóknarleik gestanna og það vantaði upp á flæði á boltanum. ÍR-ingar tóku leikhlé rétt eftir miðjan leikhlutann og í kjölfarið fór boltinn að ganga betur í sókninni hjá þeim. Gestirnir leiddu í hálfleik með 26 stigum, 24-50, og róðurinn því erfiður fyrir Stjörnuna í síðari hálfleik.

Garðbæingar mættu ákveðnir til leiks í þriðja leikhluta og sýndu mikinn karakter. Sóknarleikur þeirra var allt annar en í fyrri hálfleik, boltinn gekk vel á milli manna og liðið að skapa sér opin skot. Á sama tíma náðu þeir að loka vel á ÍR-inga sem áttu í stökustu vandræðum með að skora í upphafi þriðja leikhluta. Stjarnan minnkaði muninn niður í 11 stig í stöðunni 45-56, en þá sögðu Breiðhyltingar hingað og ekki lengra og leiddu eftir þriðja leikhluta með 13 stigum, 54-67. ÍR réði síðan lögum og lofum á vellinum í lokafjórðungnum og lönduðu að lokum öruggum 30 stiga sigri, 65-95.

Myndasafn (Bára Dröfn)


 

 

 


 

 

Fréttir
- Auglýsing -