Golden State Warriors bættu í nótt sigrametið í deildarkeppni NBA þegar liðið lagði Memphis Grizzlies 125-104 í Oracle Arena í Oakland. Warriors luku því deildarkeppninni með 73 sigra og 9 tapleiki og skutust þar með fram úr besta deildarárangri Bulls frá tímabilinu 1995-96 sem var 72 sigrar og 10 tapleikir.
Steve Kerr þjálfari Warriors var leikmaður í téðu Bulls-liði sem setti metið fyrir 20 árum síðan en hann lét hafa eftir sér í gær að hann hefði aldrei grunað að metið yrði slegið. „Ég segi það sama núna og um gamla metið, ég held að þetta verði aldrei slegið, það verður einhver að vinna 74 deildarleiki og tapað aðeins átta, ég sé það ekki gerast,“ sagði Kerr.
Stephen Curry fór hamförum í leiknum með 46 stig og varð fyrsti leikmaður í sögunni til þess að skora 400 þrista í deildarkeppninni eða alls 402 stykki frammi fyrir troðfullri Oracle Arena en uppselt var á leikinn í nótt. Óhemjan Curry var 10-19 í þristum í leiknum en á síðustu leiktíð skoraði hann 286 þrista í deildarkeppninni og því um risavaxna bætingu að ræða þetta tímabilið. Golden State unnu eins og gefur að skilja vesturdeildina og mæta Houston í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en Houston skreið inn í úrslitakeppnina á kostnað Utah sem lá fyrir Lakers í nótt hvar Kobe Bryant kom nokkuð við sögu.
Lakers lögðu Utah 101-96 og það er deginum ljósara að Kobe Bryant, sem hefur verið á kveðjutúr um NBA þessa deildarkeppnina, ætlaði að skilja við sportið með hvell. Bryant gerði 60 stig í leiknum og kveður sem einn sá allra besti til þess að hafa spilað íþróttina fögru.
Þeir vestanhafs týna ýmislegt til þegar goðsagnir hverfa en hér má sjá á skotkorti öll 30,699 skotin sem Kobe Bryant tók á ferlinum í NBA deildinni.
En nú er ljóst hvernig úrslitakeppnin verður skipuð:
Austur:
Cleveland – Detroit
Atlanta – Boston
Miami – Charlotte
Toronto – Indiana
Vestur:
Golden State – Houston
LA Clippers – Portland
Oklahoma – Dallas
San Antonio – Memphis
Phantom video frá meti Warriors
Kobe með 60
Söguleg stund fyrir NBA