Landsliðsmaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson var mættur í átökin með uppeldisfélaginu sínu í kvöld þegar Fjölnir og Skallagrímur opnuðu úrslit 1. deildar karla.
Hörður lauk nýverið tímabili sínu í grísku úrvalsdeildinni með Trikalla og er kominn heim til Íslands. Bára Dröfn Kristinsdóttir ljósmyndari smellti af meðfylgjandi mynd en hér má sjá þá bræður Hörð og Hreiðar Bjarka sem gerði 5 stig í leiknum.
Sannkallað bræðralag á bekknum hjá Fjölni í kvöld því eins og flestum ætti að vera kunnugt er Hjalti Þór, eldri bróðir Harðar og Hreiðars, þjálfari liðsins. Eins og félagaskiptareglur segja til um þá var Hörður eins og gefur að skilja ekki í búning heldur sínum mönnum til stuðnings á tréverkinu.
Mynd/ Bára Dröfn