Íslands- og bikarmeistarar KR létu 16 þriggja stiga körfum rigna yfir Njarðvíkinga í oddaviðureign liðanna í DHL-Höllinni í kvöld í sannkallaðri flugeldasýningu. KR vann magnaðan stórsigur á Njarðvík, 92-64, og það hreinlega rauk úr dísilvél meistaranna. Að sama skapi voru skotin ekki að detta Njarðvíkurmegin og það fjaraði því vel undan gestunum með hverri mínútunni. Pavel Ermolinskij sem lék ekki fjórða leikinn vegna meiðsla spilaði 30 mínútur í kvöld, gerði 6 stig, tók 5 fráköst og gaf 8 stoðsendingar og hélt þéttingsfast um stjórnartaumana. KR arkar því inn í úrslit þar sem þeir mæta Haukum en það verður í fyrsta sinn í sögunni sem félögin mætast í úrslitum eftir að úrslitakeppnin hóf göngu sína 1984.
Njarðvíkingar fóru vel af stað en heimamenn í KR komu steinsnar á eftir þeim upp úr rásblokkinni og leiddu 22-17 að loknum fyrsta leikhluta. Snorri Hrafnkelsson kom sterkur inn af bekk KR-inga og sett sex snögg stig á fyrrum liðsfélaga sína í Njarðvík og KR-ingar tóku á rás.
KR hreyfði boltann vel, bjuggu til góð og opin skotfæri og smám saman fóru þau að detta og leikurinn að sveiflast KR á band. Helgi Magnússon kom KR í 41-27 með þrist og skömmu síðar bætti Pavel Ermolinski við öðrum og staðan orðin 44-30. KR leiddi 47-33 í hálfleik með 25-16 sigri í öðrum leikhluta. Fjörið klárlega heimamegin en ef serían kenndi einhverjum eitthvað þá er það að 14 stig milli þessara liða eru ekkert stórmál í hálfleik.
KR setti 8 af 14 þristum sínum niður í fyrri hálfleik og viðbúið að eitthvað myndi nú slakna á þeirri dembu en fjölin var fundin og átta þristar til viðbótar litu dagsins ljós í síðari hálfleik! Njarðvíkurmegin sá Atkinson um að skora og gestirnir voru óhræddir við að taka skotin, freista þess að komast sjálfir í gang en það vildi ekki verða.
Þegar nokkuð var liðið á þriðja leikhluta jók Helgi Magnússon muninn í 30 stig með þriggja stiga körfu, 69-39. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 76-45 og frá því verður ekkert snúið þegar þú ert staddur í DHL-höll þeirra KR-inga. Röndóttir eru með alltof sterk, reynslumikið og vel spilandi lið til þess að láta svona stöðu frá sér og það stóð heima. Fjórði leikhluti varð aldrei til umræðu, KR var fyrir löngu búið að gera út um leikinn með magnaðri frammistöðu þar sem menn kepptust hver um annan við að leggja þung lóð á vogarskálarnar og uppskáru öruggan 92-64 sigur.
Fjórir liðsmenn KR gerðu 12 stig eða meira í leiknum, Michael Craion var atkvæðamestur með 20 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson gerði 16 stig, Darri Hilmarsson 13 og þá var Helgi Magnússon með 12 stig. Njarðvíkurmegin var Atkinson með 22 stig og 14 fráköst og Haukur Helgi Pálsson gerði 13 stig.
KR á leið í úrslit gegn Haukum en Njarðvíkingar komnir í sumarfrí. Þegar Njarðvíkingar lönduðu Hauki Helg Pálssyni í upphafi tímabils veltu margir því fyrir sér hvort grænir myndu gera atlögu að titlinum. Njarðvíkingar komu inn í úrslitakeppnina með fjögur töp í röð á bakinu og í 7. sæti, fóru í gegnum Stjörnuna í oddaleik sem var í 2. sæti og duttu út í kvöld gegn KR í oddaleik sem voru ríkjandi deilarmeistarar. Á einhverjum heimilum myndi fólk kalla þetta nokkuð vasklega framgöngu en Logi Gunnarsson leikmaður Njarðvíkinga var ekki á þeim buxunum þegar Karfan.is ræddi við hann eftir leik og sagði þetta ekki ásættanlegt því Njarðvíkingar ætluðu sér titilinn og ekkert annað. Nánar er rætt við Loga á eftir.
Nú er að bíða rimmu KR og Hauka og verður forvitnilegt að sjá hvernig sú glíma fer en það er deginum ljósara að það herðir á dalinn hjá Haukum ef KR-ingar ætlar sér að vera í þessum ham í úrslitum.
Umfjöllun – Jón Björn