Finnur Atli Magnússon verður líkast til í stöðu sem hann hefði seint dreymt um fyrir nokkrum árum síðan. Að spila til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn gegn KR. Finnur verandi uppalinn í vesturbænum spilar nú líkt og flestir vita með liðið Hauka og hefur átt fínu gengi að fagna í rauða búningnum. "Ég er eðlilega gríðarlega spenntur fyrir þessari rimmu. Þetta verður erfitt, að fara í DHL og spila við KR í þessu andrúmslofti en maður verður bara að taka því fagnandi og njóta þess að spila." sagði Finnur í samtali við Karfan.is
Ekki einungis mun Finnur koma til með að spila gegn sínu uppeldisfélagi heldur er bróðir hans Helgi Már ein helsta driffjöður KR liðsins og spurning hvernig fjölskyldugrillið í góða veðrinu síðustu daga hafa verið? "Ég og Helgi höfum ekki mikið verið að skjóta á hvorn annan enda ætlum við bara láta verkin tala. Það verður gríðarlega erfitt að sigra í DHL en til þess að eiga möguleika á sigri verðum við að vera agaðir í okkar leik reyna að hægja á þeim og stoppa þriggja stiga skytturnar þeirra. Það lið sem stjórnar hraðanum og sigrar frákasta baráttuna mun vera í góðum málum í þessari rimmu." sagði Finnur ennfremur.
Brynjar Þór Björnsson sem öllu jafnan hefur kjaftinn fyrir neðan nefið á sér og sagði í samtali í miðlum eftir rimmuna gegn Njarðvík að nú þyrfti að sýna Haukunum að þeir ættu ekki roð í KR. Finnur Atli vildi lítið tjá sig um þessi orð Brynjars. "Við erum ekkert að stressa okkur á hvað Brynjar er að segja." sagði Finnur nokkuð einbeittur.