spot_img
HomeFréttirBrynjar: Ívar vill að 18 ára pjakkur taki öll stóru skotin

Brynjar: Ívar vill að 18 ára pjakkur taki öll stóru skotin

Karfan.is náði tali af Brynjari Þór í undirbúningi fyrir fyrsta leik KR og Hauka í úrslitum Domino's deildar karla. Við spurðum hann hvort KR væri að fara að spila við næstbesta lið á landinu að hans mati.

 

"Við hlökkum mikið til að mæta Haukunum. Þeir hafa verið að spila frábærlega, ná vel saman og eru mjög óeigingjarnir. Það hlýtur að vera skrítin tilfinning fyrir Ívar að vilja að 18 ára pjakkur taki öll lokaskotin," en þar á Brynjar við Kára Jónsson leikmann Hauka og son Jóns Arnars Ingvarssonar. "Kári hefur sýnt mikið hugrekki og þor með því að vera vægðarlaus í lok leikja. Með þessa blöndu hafa þeir sýnt að þeir eru næst besta lið Íslands."

 

KR sló Njarðvík út í oddaleik í undanúrslitunum í DHL höllinni á sannfærandi hátt, eða með 28 stiga mun. Var sá leikur mikilvægur fyrir liðið til að koma með sjálfstraust inn í úrslitin, þar sem liðið virðist hafa verið að hiksta eitthvað í þeirri viðureign?

 

"KR-liðið hefur þurft hvatningu í allan vetur. Veturinn fór hægt af stað, við unnum leiki en gerðum það ekki alltaf á fallegan hátt. Þegar mikið hefur verið undir höfum við allir spilað frábærlega, fyrsti leikur Hauks með Njarðvík, bikarúrslitaleikurinn við Þór, úrslitaleikurinn um deildina við Keflavík og núna oddaleikurinn við Njarðvík. Í kringum alla þessa leiki var mikil umfjöllun og töluvert undir  og í öllum þessum leikjum þá svöruðum við því með því að vinna. Það einkennir okkar lið – við mætum tilbúnir í stóru leikina!"

 

Að því sögðu, býst Brynjar við stórum leikjum í þessari seríu? "Eftir fimm skipti í úrslitum," svaraði Brynjar, "veit ég að allir leikirnir í úrslitum eru risastórir."

 

Mynd: Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -