Íslands- og bikarmeistarar Snæfells jöfnuðu í kvöld metin 1-1 gegn Haukum í úrslitum Domino´s-deildar kvenna. Lokatölur 69-54 í Hólminum þar sem Haiden Denise Palmer fór fyrir Snæfell með 25 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar. Þá var Sylvía Rún Hálfdanardóttir með 13 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar í liði Hauka sem söknuðu Helenu Sverrisdóttur sárt sem var ekki með í kvöld vegna kálfameiðslanna sem hún hlaut í fyrsta leik.
Lítið bar í milli í fyrsta leikhluta þar sem Hólmarar leiddu 14-12 eftir fyrstu tíu mínúturnar en það skall á hríð í ranni Hauka í öðrum leikhluta þar sem Snæfell hélt gestum sínum stigalausum fyrstu sjö mínútur annars leikhluta með öflugum varnarleik. Jóhanna Björk Sveinsdóttir losaði um hömlurnar fyrir Hauka með tveimur stigum en Snæfell vann leikhlutann 18-4 og leiddi 32-16 í hálfleik.
Gestirnir úr Hafnarfirði komu með annað og betra fas inn í síðari hálfleikinn en heimakonur voru einráðar við stýrið og sigldu öruggum sigri í höfn eins og áður segir, 69-52.
Snæfell virtist hættulega nálægt aðeins of miklu kæruleysi og það glitti í smá von fyrir Haukana þarna milli þriðja og fjórða leikhluta Shanna Dacany var dugleg en Haiden var bara að eiga of flottan leik til að Haukar gætu unnið án Helenu á þessum sterka heimavelli Hólmara. Eins er það munaður fyrir Snæfell að geta róterað inná leikmönnum á borð við Rebekku og Ernu sem standa alltaf fyrir sínu.
Þriðja viðureign liðanna fer fram í Hafnarfirði næstkomandi fimmtudagskvöld en með sigri Snæfells í kvöld er ljóst að titilinn getur farið á loft í Hólminum í fjórða leik 24. apríl eða ef kemur til oddaleiks sem þá færi fram í Schenkerhöllinni.
Myndasafn – Sumarliði Ásgeirsson
Snæfell-Haukar 69-54 (14-12, 18-4, 22-18, 15-20)
Snæfell: Haiden Denise Palmer 25/8 fráköst/7 stoðsendingar/6 stolnir/3 varin skot, Berglind Gunnarsdóttir 14/7 fráköst/6 stolnir, Bryndís Guðmundsdóttir 9/8 fráköst/6 stoðsendingar, Alda Leif Jónsdóttir 6, Gunnhildur Gunnarsdóttir 6/6 fráköst, María Björnsdóttir 4/4 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 3, Erna Hákonardóttir 2, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 0, Andrea Björt Ólafsdóttir 0, Sara Diljá Sigurðardóttir 0, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 0.
Haukar: Sylvía Rún Hálfdanardóttir 13/5 fráköst, Pálína María Gunnlaugsdóttir 10/6 fráköst, Shanna Dacanay 7, Sólrún Inga Gísladóttir 7, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 6, Dýrfinna Arnardóttir 5, Hanna Þráinsdóttir 2/3 varin skot, Magdalena Gísladóttir 2, Þóra Kristín Jónsdóttir 2, María Lind Sigurðardóttir 0, Rósa Björk Pétursdóttir 0, Auður Íris Ólafsdóttir 0/6 fráköst.
Viðureign: 1-1