spot_img
HomeFréttirVerður KR íslandsmeistari þriðja árið í röð eða Haukar í fyrsta skipti...

Verður KR íslandsmeistari þriðja árið í röð eða Haukar í fyrsta skipti í 28 ár?

Tólf lið hófu keppni í Dominos deild karla í Október síðastliðnum. Öll liðin með háleita drauma og markmið um að komast langt og geta lyft bikarnum stóra. Eftir þrotlausa vinnu, baráttu og sigurvilja standa einungis tvö lið eftir. Bæði lið hafa þurft að mæta mótspyrnu og vinna stóra sigra á leið sinni en nú er komið að úrslitastund.

 

Deildarmeistarar KR úr Reykjavík freista þess að jafna sigursælasta lið sögunnar í titlafjölda á meðan Haukar frá Hafnarfirði sjá í hyllingum fyrsta íslandsmeistaratitilinn í 28 ár. Til að undirbúa körfuboltaáhugafólk og aðra undir þetta frábæra einvígi munum við skoða liðin og möguleika þeirra hér að neðan:

 

KR – HAUKAR

Núverandi Íslands- og bikarmeistarar KR eru í leit af þriðja íslandsmeistaratitlinum á þrem árum og þeirra fimmtánda í sögunni. Með því myndu þeir jafna ÍR í fjölda íslandsmeistaratitla og þarf með deila flestum titlum.   Níu sinnum hefur KR farið í úrslitaeinvígið og sjö sinnum gengið frá þeim sem Íslandsmeistarar sem verður að teljast gott sigurhlutfall.

Haukar eru nú í fyrsta skipti í úrslitaeinvíginu frá 1993 eða í 23 ár. Þeir eiga einn íslandsmeistaratitil í bikarsafninu og var það árið 1988 þegar Reynir Kristjánsson tryggði þeim sigurinn á eftirminnilegan máta í tvíframlengdum leik gegn Njarðvík. Haukar hafa fjórum sinnum farið í úrslitaeinvígið og því þrisvar sinnum fengið silfrið og vilja sjálfsagt breyta þeirri tölfræði.

 

Frá árinu 1984 hafa þessi lið einungis mæst einu sinn í úrslitakeppni, það var árið 2001 þar sem KR vann 2-0. Það er ansi áhugavert í langri sögu þessara liða að þetta sé eina einvígi þeirra. Báðir leikir liðanna á þessu tímabili voru ójafnir þar sem KR fór með örugga sigra. Haukar hafa hinsvegar styrkst gríðarlega og þroskast frá síðasta leik þeirra 31. janúar síðastliðin.

 

Helgi Már Magnússon mun spila sína síðustu leiki á ferlinum í þessu einvígi og mun það sjálfsagt gefa honum og liðinu meiri vilja. Þáttaka Pavels Ermolinskij er líkleg smávægileg meiðsli hans í  einvíginu gegn Njarðvík gætu dregið aðeins af honum í fyrstu leikjunum sem gæti reynst dýrt fyrir KR. Breiddin í liðinu er gríðarleg og eru menn á bekknum sem geta komið inná og breytt leikjum.

 

Það verður að taka hattinn ofan fyrir uppbyggingastarfi Hauka á síðustu árum. Það eru ekki nema þrjú ár síðan liðið var í fyrstu deild en með því að gefa ungum og uppöldum leikmönnum tækifæri á að dafna hefur liðið núna komið sér í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn. Meirihluti liðsins dælir hreinu Haukablóði og hefur spilað saman í fjölmörg ár.

 

Fjölmargir hafa beðið þess að leikmenn eins og Emil Barja og Haukur Óskarsson taki skrefið úr því að vera efnilegir í að verða góðir. Það má segja með hreinni samvisku að það sé komið að því, það eru ekkert annað en góðir leikmenn sem leiða lið sitt alla leið í úrslit. Engar líkur eru á að þessir strákar séu saddir og allar líkur á að þetta sé fyrsta skrefið í átt að góðum tímum hjá Haukum.

 

Það er margt mjög spennandi í þessu einvígi, sem dæmi mætast þeir bræður Helgi Már og Finnur Atli Magnússynir. Finnur sem varð Íslandsmeistari með KR í fyrra getur nú unnið annan titilinn í röð nema nú í rauðum búning. Síðast þegar þeir bræður mættust í úrslitakeppni var Finnur einnig í rauðum búning nema þá með Snæfell. Það einvígi vann Helgi 3-0 og er spurning hvort rauði liturinn sé óhappa gegn KR.

 

Einvígi þeirra Brandons Mobley og Michael Craion verður ekki bara áhugavert heldur líklega það sem gæti ráðið úrslitum. Craion hefur óumdeilanlega verið einn besti leikmaður deildarinnar síðustu ár og fáir hafa staðist honum snúninginn undir körfunni. Mobley hefur hinsvegar komið mjög sterkur í deildina og er betri skotmaður en Craion sem gefur þeim tækifæri á að draga hann frá teignum og opna þannig aðrar leiðir að körfunni. Brandon getur tekið mikið af erfiðum fráköstum og gæti vel gert hlutina erfiða fyrir Craion. Aftur á móti gæti Brandon átt erfitt með að verjast einn á einn gegn honum, það er því heldur betur verðugt að fylgjast með þessum tvem frábæru leikmönnum kljást.

 

Blendnar tilfinnigar bera körfuboltaáhugafólk í úrslitaeinvígið þar sem við munum fá frábæran körfubolta en það þýðir einnig að tímabilinu fer að ljúka. Það er morgunljóst að þetta einvígi verður stórskemmtilegt og er ekki ólíklegt að þetta sé fyrsta einvígi þessara liða af mörgum á komandi árum.

Leikdagar:   

Leikur 1 Þriðjudagur – 19. apríl kl. 19:15 – KR-Haukar

Leikur 2 Föstudagur – 22. apríl kl. 19:15 – Haukar – KR

Leikur 3 Mánudagur – 25. apríl kl. 19:15 – KR-Haukar

Leikur 4 Fimmtudagur – 28. apríl kl. 19:15 – Haukar – KR (ef þarf)

Leikur 5 Laugardagur – 30. apríl  – KR-Haukar (ef þarf)

 

Samanburður á tölfræði liðanna að meðaltali í leik:

 

  KR Haukar
Tveggja stiga nýting 53% 47,5%
Þriggja stiga nýting 33,7% 33 %
Vítaskot nýting 62,9% 71,9%
Tapaðir boltar 14,5 13,9
Stolnir boltar 9,8 7,6
Sóknarfráköst 12,7 12,6
Fráköst 45,4 45,4
Stoðsendingar 22,6 20,1
Fiskaðar villur 18,1 18,7
Varin skot 4,7 5,2
Stig 88,8 83,3

 

 

KR

 

Tölfræði líklegs byrjunarliðs:

Pavel Ermolinskij – 8,3 stig, 9 fráköst, 7 stoðsendingar, 17,7 framlagsstig
Brynjar Þór Björnsson – 12 stig, 3,1 fráköst, 2,7 stoðsendingar, 10 framlagsstig.
Helgi Már Magnússon – 11,3 stig. 5,2 fráköst, 2,5 stoðsendingar, 12,7 framlagsstig
Michael Craion – 22,6 stig, 11,1 fráköst, 2,5 stoðsendingar, 28,6 framlagsstig
Darri Hilmarsson – 11,5 stig, 4,8 fráköst, 1,9 stoðsendingar, 12,9 framlagsstig

 

Leið KR að úrslitunum:

Átta liða úrslit – KR 3-0 Grindavík

Undanúrslit – KR 3-2 Njarðvík

 

Hvað þarf KR að gera til að vinna Hauka?

Pressan er á KR í þessu einvígi þar sem þeir geta unnið sinn þriðja titil í röð og eru með frábært lið. Það verður því helsta verkefni þeirra fyrir einvígið að stilla hausinn rétt og koma afslappaðir í leikina. Þrátt fyrir það þarf hungrið að vera til staðar og ef miðað er við viðtöl og orð leikmanna er engin skortur á því.

 

Það er oft talað um að erfiðara sé að verja titla en að vinna þann fyrsta og þarf KR að láta á það reyna núna annað árið í röð. KR liðið hefur hinsvegar að geyma fullt lið af sigurvegurum og mönnum sem búa yfir gríðarlegri reynslu. Ef þeim tekst að nýta þessa andlegu eiginlega í gegnum einvígið getur það gefið þeim ákveðið forskot gegn ungu Hauka liði sem nú spilar í úrslitaeinvígi í fyrsta skipti.


KR mun fá opin skot í einvíginu þegar Haukar reyna að loka á Craion og þarf skotnýting liðsins að vera í takt við það sem sást í oddaleiknum gegn Njarðvík. Það er ljóst að KR vill leita út í góð skot enda með algjörar stórskyttur í liðinu sem munu setja stór skot.

 

KR hefur spilað marga leiki í gegnum tíðina þar sem þeir virðast ekki komast í fimmta gírinn fyrr en í fjórða leikhluta og síga þá framúr. Það verður ekki hægt að treysta á að það gerist í úrslitaeinvíginu og þarf KR því að vera með einbeitinguna í lagi allt einvígið því.

Sálfræðihernaður KR er hafinn og þá helst frá Brynjari Björnssyni og mun liðið sjálfsagt reyna að pirra leikmenn Hauka nokkuð og fá þá til að missa hausinn. Hinn strangtrúaði Brandon Mobley er þekktur fyrir að missa skapið og er nokkuð ljóst að KR mun reyna að koma honum úr leiknum með auðveldum villum og klaufaskap.

 

Mikilvægasti leikmaður KR:

Pavel Ermolinskij verður ákaflega mikilvægur fyrir KR í þessu einvígi. Haukum tókst að loka gríðarlega á leiðir að teignum hjá Tindastól og það verður því mikilvægt að hafa mann eins og Pavel sem getur nánast alltaf fundið leiðir. Stjórnar liðinu þar sem yfirsýn hans og yfirvegun á vellinum gefur KR vopn til að nota gegn þessari sterku vörn Hauka. Auk þess getur hann skilað góðum körfum en hefur þann eiginleika að leita alltaf að besta mögulega kosti í stöðunni sókarlega. Algjör lykilmaður í þessu liði og hugsanleg meiðsli hans gætu haft mikil áhrif á einvígið.

 

X-Factor:

Darri Hilmarsson hefur stigið gríðarlega upp í úrslitakeppninni og var að öðrum ólöstuðum sá leikmaður sem skilaði mikilvægasta framlaginu í einvíginu gegn Njarðvík. Hann átti ekki sitt besta tímabil í deildarkeppninni en hefur sýnt það í úrslitakeppninni hversu ofboðslega góður hann er í körfubolta.

 

Dugnaðarforkur að öllu hjarta og er gjörsamlega ódrepandi í baráttunni, auk þess er skotnýtingin hans góð og getur varist stærri leikmönnum. Líklega algjörlega óþolandi að spila gegn svona manni en geggjað að hafa hann í sínu liði. Haukar munu keyra upp hitann og baráttuna í þessum leikjum og því verður Darri X-factor í að mæta því.

Haukar

 

Tölfræði líklegs byrjunarliðs:

Finnur Atli Magnússon – 10,6 stig, 6,9 fráköst, 2,9 stoðsendingar, 16,2 framlagsstig

Haukur Óskarsson – 13,1 stig, 4,1 fráköst, 1,9 stoðsendingar, 9,5 framlagsstig

Kári Jónsson – 17,1 stig, 5,1 fráköst, 5,1 stoðsendingar, 18,7 framlagsstig

Emil Barja – 9,6 stig. 6,8 fráköst, 4,9 stoðsendingar, 16 framlagsstig

Brandon Mobley – 20,2 stig, 9,5 fráköst, 1,5 stoðsendingar, 21,5 framlagsstig

 

Leið Hauka að úrslitunum:

Átta liða úrslit – Haukar 3-1 Þór Þorlákshöfn

Undanúrslit – Haukar 3-1 Tindastóll

Hvað þurfa Haukar að gera til að vinna KR?

Stemmningin hefur verið góð í liðinu í úrslitakeppninni og þrátt fyrir að brottföll lykil leikmanna vegna meiðsla og leikbanns hefur liðið stigið upp og klárað sína leiki. Karakterinn í liðinu hefur verið magnaður frá því í febrúar og fara þeir nánast pressulausir í þetta úrslitaeinvígi.

 

Varnarleikur liðsins hefur verið algjörlega magnaður, þá sérstaklega í einvíginu gegn Tindastól og þurfa þeir að halda því áfram og jafnvel gera enn betur. KR vill láta boltann ganga á milli manna og leita inn á Craion undir körfunni, ef Haukum tekst að finna lausn á því og halda áfram að loka teignum vel er eftirleikurinn auðveldur.

Sóknarfráköst Hauka getur verið sá eiginleiki sem getur skilið á milli liðanna. Haukar vilja taka mikið af þriggja stiga skotum, hafa 33% skotnýtingu og því verða mörg tækifæri á sóknarfráköstum. Gegn jafn góðu liði og KR er mikilvægt að nýta öll tækifæri vel. KR hefur gefið andstæðingum sínum að meðaltali 13 fráköst og ef Haukum tekst að nýta annan sénsinn með tvem stigum í hverju frákasti eru það 26 stig sem Haukar hafa í forskot.

Ásvellir hafa boðið uppá frábæra stemmningu í þessari úrslitakeppni og verður mikilvægt fyrir Hauka að halda því áfram. Auk þess að stuðningsmenn þeirra geri sér ferð í vesturbæ Reykjavíkur á leikinn því það þarf ekki mjög greindann einstakling til að átta sig á að Haukar verða að vinna einn leik í DHL-höllinni. Stuðningssveit Hauka þarf því að vera í toppstandi og gefa sínum mönnum þann aukakraft sem þarf í þessa stóru leiki.

 

Mikilvægasti leikmaður Hauka:

Kári Jónsson verður Haukum gríðarlega mikilvægur í þessu einvígi eins og hann hefur verið á öllu tímabilinu. Má ekki gleymast að gaurinn er 19 ára og er að fara fyrir liði sínu í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn. Bara það eitt er gríðarlegur árangur og verður minnst lengi. Getur búið til allt úr engu og hefur þroska á vellinu á við mjög reynslumikinn leikmann. Það er eins og það renni ekki í honum blóðið svo mikil er yfirvegunin á vellinum.

 

Njósnarar og aðilar frá háskólum í Bandaríkjunum hafa verið á síðustu leikjum hjá honum á má því gera fastlega ráð fyrir því að þetta sé hans síðasta tímabil á Íslandi í bili. Það mun sjálfsagt gefa honum auka kraft og vilja til að skilja við liðið sem Íslandsmeistarar.

 

X-factor:

Þegar tölfræði Hauka á tímabilinu er skoðuð er einn  óvæntur leikmaður  í fjórum af fimm liðssamsetningum sem hafa skilað mestri forystu i leikjum. Það er Kristinn Jónasson, hefur átt gott tímabil og gefið Brandon Mobley mínútur á bekknum án þess að liðið finni mikið fyrir því. Gegn KR sem hefur úr gríðarlegri breidd að moða getur munað miklu að reynslumikill leikmaður eins og Kristinn komi inná og rífi liðið áfram með baráttu sinni og keppnisskapi. Traustur leikmaður sem mun alltaf skila sínu á þeim tíu mínútum sem hann fær.

 

 

Myndir / [email protected], Bára Dröfn, Hjalti Árnason

 

Texti / Ólafur Þór Jónsson – @Olithorj

Fréttir
- Auglýsing -