Helena Sverrisdóttir, leikmaður kvennaliðs Hauka tognaði á kálfa í fyrsta leik Hauka og Snæfells í úrslitum Domino's deildar kvenna. Hún lék ekkert með liðinu í öðrum leik liðanna á mánudaginn en allt kapp er lagt á að hún verði klár í slaginn annað kvöld.
"Ég verð aldrei 100% en við erum að vinna í því að ná mér góðri til að geta spilað með," sagði Helena þegar Karfan.is náði tali af henni fyrr í dag en þá var hún í meðferð hjá sjúkraþjálfara. "Þetta skýrist örugglega bara rétt fyrir upphitun."
Helena reif þennan vöðva fyrir rúmum tveimur árum þegar hún spilaði með Miskolc í Ungverjalandi en þetta er alveg ný tognun, að hennar sögn.
Leikur Hauka og Snæfells hefst á Ásvöllum kl. 19:15 annað kvöld.
Mynd: Axel Finnur