Erlendur Ágúst Stefánsson er kominn aftur heim í raðir Þórs í Þorlákshöfn en hann var síðastliðinn vetur í námi í Bandaríkjunum og þar áður á mála hjá FSu. Einar Árni Jóhannsson þjálfari Þórsara staðfesti þetta við Karfan.is rétt í þessu.
„Það er mikil ánægja með það að fá Erlend Ágúst aftur heim. Hann var í tvö ár á Selfossi og svo í Bandaríkjunum í vetur og kemur reynslunni ríkari til baka. Hann er náttúrulega alinn upp í Þór og lokar skemmtilegri línu þar sem við erum með uppalda stráka frá árgang ´93 til ´98 sem eru þegar farnir að láta kveða að sér í meistaraflokki (vantaði hann úr ´95 árg) og það er ansi gott í ekki stærra samfélagi. Erlendur er öflugur íþróttamaður og getur leyst báðar bakvarðarstöðurnar þannig að hann eflir hópinn klárlega,“ sagði Einar Árni í samtali við Karfan.is nú síðdegis.
Þórsarar komust í bikarúrslit á tímabilinu þar sem liðið tapaði gegn KR og svo fór liðið í 8-liða úrslit og varð að játa sig sigrað gegn Haukum sem nú eru í úrslitum gegn KR.
Mynd/ Erlendur Ágúst lék síðast hér á landi með FSu sem verður í 1. deild karla á næsta tímabili.