Haukar tóku í kvöld 2-1 forystu í úrslitum gegn Snæfell í Domino´s-deild kvenna. Helena Sverrisdóttir bauð uppi á frammistöðu sem verður lengi í minnum höfð en hún lék allan leikinn, skoraði 45 stig, tók 11 fráköst og gaf 6 stoðsendingar í sigurliði Hauka. Reyndar fékk Helena heiðursskiptingu þegar örfáar sekúndur voru eftir en hver er s.s. að telja? Helena hvíldi síðasta leik vegna kálfameiðsla en kom til baka í kvöld með þvílíkum látum og bar Hauka á herðum sér til sigurs, stórkostleg frammistaða og gott ef það var ekki smá Larry Bird meiddur í baki hula yfir þessari frammistöðu Helenu! Haiden Palmer bauð einnig upp á magnaða frammistöðu hjá Snæfell með 33 stig og 15 fráköst en Haukar höfðu þetta af með látunum í Helenu.
Helena var ekki lengi að láta að sér kveða heldur skoraði sex af fyrstu tíu stigum Hauka í leiknum sem komust í 10-6. Haiden Palmer tók þá kipp í liði Hólmara og skoraði níu stig og gestirnir leiddu 15-18 að loknum upphafsleikhlutanum þar sem fimm leikmenn Snæfells höfðu skorað en Helena með 10 af 15 stigum Hauka.
Í öðrum leikhluta var það vörnin sem stóð helst uppúr hjá liðunum enda aðeins samtals níu stig skoruð eftir fimm mínútna leik í öðrum leikhluta. Hólmarar sigu aftur framúr þegar líða tók á annan leikhluta og leiddu 26-32 í hálfleik.
Helena Sverrisdóttir sem hvíldi síðasta leik vegna meiðsla lék allan fyrri háflleikinn og var þar mjög afgerandi í liði Hauka með 17 stig og 6 fráköst en Haiden Palmer var sömuleiðis afkastamikil Snæfellsmegin með 15 stig og 7 fráköst.
Haukar mættu út í síðari hálfleik með svæðisvörn, Snæfell þakkaði pent fyrir sig og sendi fjóra þrista yfir Hauka áður en þær bökkuðu með það varnarafbrigði. Gunnhildur og Haiden settu sinnhvorn og Bryndís Guðmunds með tvo og Snæfell komst í 32-44. Dýrfinna Arnardóttir tók flottar rispur í liði Hauka í leikhlutanum og þá hafði Pálína Gunnlaugsdóttir það loks af að skora sín fyrstu stig í leiknum er hún minnkaði muninn í 42-46 en þetta var aðeins þriðja skotið hennar á tæpum 25 mínútum. Pálína átti eftir að trekkja sig ennbetur í gang þegar líða tók á leikinn.
Haukar unnu þriðja leikhluta 20-16 og náðu að jafna leikinn 46-46 en það var það næsta sem þær höfðu komist Snæfell frá því að hafa verið yfir í fyrsta leikhluta.
Snæfell setti 10-0 áhlaup á Hauka úr stöðunni 46-46 og komust í 46-56 en Haukar tóku þá aftur kipp og jöfnuðu leikinn 67-67 með körfu frá Pálínu þegar ein mínúta var til leiksloka. Þessar 60 sekúndur voru sannkallaður rússíbani því Haiden kom Snæfell í 67-69 með 15 sekúndur eftir. Fimm sekúndum síðar dripplaði Helena af velli og Snæfell dæmdur boltinn og Helena allt annað en sátt og vildi meina að sér hefði verið ýtt. Snæfell fékk innkastið með 10 sekúndur eftir en grýttu boltanum frá sér! Haukar héldu í sókn þar sem Helena barði sig í gegnum vörn gestanna og jafnaði 69-69. Lokasókn Snæfells gaf ekki stig svo framlengja varð leikinn!
Jóhanna Björk Sveinsdóttir gerði fyrstu stig framlengingarinnar fyrir Hauka og sannaðist því hið fornkveðna að það lið sem fyrr skorar í framlengingu vinnur leikinn! Helena kom Haukum svo í 73-69 og heimakonur í Hafnarfirði voru almennt sterkari þessar fimm framlengdu mínútur og unnu framlenginguna 13-5. Lokatölur 82-74 og því sjöundi heimasigurinn staðreynd í leikjum liðanna í deild og úrslitakeppninni!
Eins og áður segir var Helena Sverrisdóttir með 45 stig í kvöld á 44,50 mínútum, hún tók einnig 11 fráköst, gaf 6 stoðsendingar með 42 framlagspunkta. Meidd á kálfa er þessi frammistaða ekkert annað en hreint afbragð. Jóhanna Björk Sveinsdóttir átti einnig sterka frammistöðu fyrir Hauka með 7 stig og 13 fráköst. Hjá Snæfell var Haiden Palmer með 33 stig, 15 fráköst og 5 stoðsendingar og þá var Gunnhildur Gunnarsdóttir með 15 stig og 7 stoðsendingar.
Þessi þriðji leikur klárlega einn sá allra besti í einvíginu til þessa og því ætti fólk að fara að láta sér hlakka til fjórða leiksins þar sem Haukar geta orðið Íslandsmeistarar í Stykkishólmi eða Snæfell tryggir sér oddaleik.
Myndasafn – Axel Finnur
Myndasafn – Þorsteinn Eyþórsson
Umfjöllun – Jón Björn
Viðtöl eftir leik
Heiðursskipting Helenu. 45 stig á tognuðum kálfa. #korfubolti https://t.co/tJ75uAAe15
— Karfan.is (@Karfan_is) April 21, 2016