spot_img
HomeFréttirSkallar tóku lokasprettinn upp í úrvalsdeild

Skallar tóku lokasprettinn upp í úrvalsdeild

Það var hreinn úrslitaleikur um laust sæti í deild þeirra bestu í Grafarvoginum í kvöld. Borgarnes tæmdist um 5 leytið í dag og Skallagrímsmenn fjölmenntu í Dalhús með Fjósamenn í broddi fylkingar. Fjöl-margir létu einnig sjá sig úr Grafarvoginum og flott stemmning í húsinu. Fjölnismenn og Skallar hafa metnað og vilja til að keppa við þá bestu og alger synd að annað þessara skemmtilegu liða þyrftu að sætta sig við ósigur að leik loknum.

Það er nánast orðið að vörumerki Borgnesinga að spila svæðisvörn heilu leikina og á því var engin breyting í kvöld. Eins og allir vita býður það allnokkuð upp á þriggja stiga skot fyrir andstæðingana og þeir duttu allnokkrir hjá heimamönnum. Gestirnir voru ekkert feimnir við að svara í sömu mynt og liðin skiptust mjög drengilega á körfum. Kristófer Gíslason hefur spilað eins og andsetinn í úrslitakeppninni og fór fremstur gestanna á meðan stigaskorið dreifðist bróðurlega á milli heimamanna. Staðan 19-19 eftir fyrsta.

Fjölnismenn lögðu augljóslega mikla áherslu á að stöðva Sigtrygg Arnar enda snarörvhentur snillingur þar á ferð. Gestirnir létu það ekkert á sig fá og margir að leggja í púkkið líkt og hjá heimamönnum. Það er skemmst frá því að segja að liðin skiptust nánast á körfum allan leikhlutann og allt útlit fyrir svakalegan leik. Heimamenn voru einu stigi yfir, 41-40, er gengið var til búningsherbergja en það kallast auðvitað ekki forysta í þessari fögru íþrótt.

JR Cadet hafði haft ansi hægt um sig í fyrri hálfleik en hóf þann seinni með tröllatroðslu við mikinn fögnuð gestanna. Hann tók sig svo til við að blokka skot hægri vinstri í vörninni enda getur hann vafalaust stokkið hæð sína í fullum herklæðum. Þrátt fyrir það voru heimamenn með litlu tána á undan gestunum mestallan leikhlutann, þó ekki nema mest 5 stigum yfir. Þegar yfir lauk hefði í raun verið hægt að sleppa þessum leikhluta, staðan 59-58 og heimamenn enn með einu skitnu stigi meira!

Það er alkunna að körfubolti er leikur áhlaupa en það hafði ekki borið mikið á því til þessa. Maður hafði á tilfinningunni að dulítill sprettur hjá öðru liðinu gæti gert útslagið. Heimamenn gerðu sig líklega á fyrstu mínútum fjórða leikhluta og komu sér í 67-62 forystu er 6 mínútur voru eftir og stemmarinn allur þeirra megin. Tveimur mínútum og hálfri betur voru piltarnir frá höfuðstað Vesturlands hins vegar komnir 4 stigum yfir, 67-71, eftir risastóran og fagran þrist frá hinum reynslumikla Haffa Gunn! Þarna var spretturinn kominn, 0-9, sem gerði útslagið og þrátt fyrir 2 stig og vítaskot frá Pryor svaraði hinn magnaði Kristófer Gíslason því með þristi hinu megin. Þarna var kominn skjálfti í Fjölnismenn og í stöðunni 70-78 og tvær mínútur eftir virtist fátt geta komið í veg fyrir sigur gestanna. Lítið vildi detta hjá heimamönnum og JR lokaði leiknum er 30 sekúndur voru eftir með SVAKALEGRI hvirfilvindatroðslu er hann kom Borgnesingum í 75-86 forystu. Allt ætlaði um koll að keyra gestamegin á áhorfendapöllunum og lokatölur urðu 75-91 sem gefur vissulega ekki rétta mynd af leiknum.

Það kom því í hlut Fjölnismanna að bíta í það súra epli að sitja eftir í fyrstu deildinni. Þeir eru með flott lið og það má sannarlega búast við þeim í deild þeirra bestu áður en langt um líður. Í þessum leik skoruðu átta Fjölnismenn, Pryor mest með 23 stig og hirti 12 fráköst. Róbert og Garðar komu næstir með 13 og 14 stig hvor.

Skallar fengu einnig mola frá mörgum leikmönnum í kvöld en hjá þeim komust einnig átta leikmenn á blað. Kristófer var þó í sérflokki, sá drengur hefur heillað margan manninn í síðustu leikjum en hann setti 24 stig í örfáum skotum og tók 6 fráköst. JR Cadet átti frábæran seinni hálfleik, endaði með 22 stig og 22 fráköst og það er eiginlega dónaskapur að nota hið frasakennda orð ,,tröllatvenna“ um slíkar tölur!

Til hamingju Borgarnes – höfuðstaður Vesturlands á að eiga lið í deild þeirra bestu!

Tölfræði leiksins

Myndasafn – Jón Björn 

Umfjöllun – Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -