spot_img
HomeFréttirReynsla og skynsemi réð úrslitum - „Three-peat“ KR orðið staðreynd

Reynsla og skynsemi réð úrslitum – „Three-peat“ KR orðið staðreynd

 

KR varð í kvöld Íslandsmeistari í fjórtánda sinn þegar liðið vann Hauka í fjórða leik liðanna í kvöld. KR vann þarf með sinn þriðja titil í röð og eru nú handhafar allra stærstu titla á landinu. Leikurinn var jafn framan af en gæði KR skyldu liðin að þegar allt kom til alls.

 

 

Leikurinn byrjaði á því að björgunarsveitir landsins hættu leit sinni af Hauki Óskarssyni en hann fannst loksins þegar hann smellti átta fyrstu stigum Hauka í leiknum.  Byssurnar voru klárar og vel þrifnar hjá báðum liðum því þau byrjuðu leikinn á fjórum þriggja stiga körfum.

 

Gríðarlega jafn fyrsti fjórðungur þar sem liðin voru jöfn á nánast öllum tölum og skiptust á að hafa forystu. Haukar réðu ekkert við Michael Craion undir körfunni en hann var eins og eimreið á tempur dýnu, vörnin bara aðlagaði sig að Craion svo hann hefði það sem þægilegast.

 

KR tók 5 sóknarfráköst í fyrsta leikhluta og má segja að það hafi búið til þessa forystu því þeir fengu alltof mörg tækifæri í sókninni. Staðan 19-22 að loknum fyrsta fjórðung og von á æsilegum leik.

 

Sóknarleikur Hauka var á köflun óskynsamur og klaufalegur í fyrri hálfleik og þá sérstaklega þegar þeir áttu tækifæri á að ná góðri forystu. Liðið tók boltann alltof fljót upp og sætta sig við miserfið skot fyrir utan teigin. Það var ekki líklegt til árangurs en líðið hélt þó í við KR en þeir hittu ótrúlega vel.

 

Brandon Mobley og Mike Craion voru allt í öllu í sínum liðum og fór nánast allt í gegnum þá í sókninni.
Munurinn í öðrum fjórðung varð ekki meiri en þrjú stig og jafnt á öllum tölum. Menn voru farnir að grafa upp hjartstuðtækni og sprengitöflurnar því þetta stefndi í algjöran „thriller“ leik.

 

Tvær þriggja stiga körfur frá Brynjari Þór alveg í lok fyrri hálfleiks kom þeim í þriggja stiga forystu. Brynjar var líkt og í síðustu leikjum sjóðheitur fyrir utan línuna og setti fjórar þriggja stiga körfur í fimm skotum. Allar áttu þær sameiginlegt að hafa komið á tímum þar sem stemmningin var að mjakast yfir til Hauka.

 

Eftir svipaða byrjun þar sem Craion gjörsamlega lék sér af Haukavörninni en Haukar svöruðu alltaf með skoti komu sjö stigalausar mínútur hjá heimamönnum. Þeir gátu ekki keypt sér körfu á þessu tímabili, KR gekk einnig bölvanlega en staðan í leikhlutanum var 4-8 þegar tvær mínútur voru eftir af honum. Það var ekki bara góður varnarleikur sem skóp þetta heldur ævintýralega léleg skotnýting.

 

Þetta bjó til átta stiga mun, KR í vil og var ekkert sem benti til þess að Haukar kæmu sér aftur í leikinn. Eins og í öllum leiknum var leikur Hauka byggður á áhlaupum og þrátt fyrir herfilegan þriðja leikhluta komust töpuðu þeir honum einungis með einu stigi.

 

Sellófanið var tekin af körfunum fyrir lokafjórðunginn því liðin settu þrjár þriggja stiga körfur í upphafi hans. KR voru greinilega búnir að bóka fermingaveislu eða álíka á laugardaginn því þeir mættu dýrvitlausir til leiks í fjórða fjórðung. Þeir náðu frábæru áhlaupi og komu forystunni í ellefu stiga við upphaf fjórðungsins. Það var í fyrsta skipti í leiknum sem munurinn á liðunum fór í tveggja stafa tölu.

 

Haukar reyndu hvað þeir gátu en nautheimskt fagn Mobley uppskar tæknivillu og hans fjórðu villu var rándýrt fyrir liðið og í raun algjörlega skammarlegt að atvinnumaður láti hafa sig úti þetta. Aftur á móti er það gjörsamlega ótækt af þess utan góðum dómurum leiksins að dæma tæknivillu á þetta, ansi mjúk tæknivilla og verða menn að fá að sýna smá tilfinningar í leiknum.

 

Þetta hefði þó ekki mikil áhrif á úrslitin því von Heimamanna fjaraði hægt og rólega út í lokafjórðungnum þegar KR setti í fimmta gír og sýndi gæði sín. Ákveðnin og sigurviljinn hvarf hægt og rólega í lokafjórðungnum hjá Haukum er KR kafsilgdi þá.

 

KR vann að lokum 70-84 og eru þar með Dominos deildar meistarar árið 2016. KR vann þar með sinn fimmtánda íslandsmeistaratitil og þann áttunda síðan úrslitakeppnin var sett á lagirnar. Umfram allt er þetta þriðji íslandsmeistaratitillinn í röð hjá félaginu sem er algjörlega fáheyrður árangur í nútíma íþróttasögu.

 

Þessi kjarni sem KR hefur myndað á síðustu árum í Pavel, Helga Magg, Brynjari Þór, Darra og fleirum er bara svo ofboðslega vel mannaður af sigurvegurum að það er erfitt að grafa annað eins upp. Brynjar Þór Björnsson var valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar en hann var frábær í kvöld með 23 stig og átta fráköst.

 

Ef einhver efaðist um það að Michael Craion væri einn besti leikmaður deildarinnar varð sá hinn sami að éta ansi myndalegt sokkapar í kvöld því gæjinn átti ævintýralegan leik. Hann skilaði 27 stigum, 9 fráköstum, var algjörlega óstöðvandi og sá leikmaður sem gerði Haukum hvað erfiðast fyrir að spila sinn bolta.

 

Það er ekki annað hægt en að taka Helga Má Magnússon fram en hann spilaði í kvöld sinn síðasta leik á ferlinum. Ferill hans er magnaður og það er ekki annað hægt en að taka ofan fyrir honum að klára ferlin með þrem íslandsmeistaratitlum með sínu uppeldisfélagi. Íslenskur körfubolti mun sakna Helga Magg og er spurning hvort það þurfi ekki einhver að benda Scott Brooks nýráðnum þjálfara Washington Wizards á hvurslags leikmaður sé á leik í borgina.

 

 

Haukar geta gengið þráðbeinir í baki frá þessu tímabili, að komast í úrslitaeinvígið er ekkert grín en þeir mættu einfaldlega ofjörlum sínum í þessari rimmu. Uppgangur liðsins er aðdáunarverður en á fjórum árum hefur liðið farið frá fyrstu deild í úrslitaeinvígi efstu deildar með sama kjarna af leikmönnum.

 

Körfuboltahefðin er aftur orðin sterk í Hafnarfirði og verður frábært að fylgjast með þessu liði halda áfram að bæta sig á næstu árum. Margir leikmenn Hauka hittu ekki á sinn besta dag í dag og má vel færa fyrir því rök að meiðsli Kára Jónssonar hafi verið þeim dýr.

 

KR er vel að sigrinum komnir og er ekkert því til fyrirstöðu að liðið haldi áfram að vinna titla og skrifa þar með fleiri blaðsíður í söguna. Til hamingju KR.

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn leiksins

 

Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

 

Myndir / Bára Dröfn

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -