Fjölnir komst áfram í undanúrslit drengjaflokks með öruggum sigri á Keflavík í Rimaskóla í kvöld. Keflvíkingar voru jafnan skrefinu á undan framan af í fyrsta leikhluta en heimamenn hleyptu þeim aldrei langt fram úr sér. Fjölnir komst fyrst yfir þegar um þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum og leiddu að honum loknum með 5 stigum, 21-16. Um miðbik annars leikhluta höfðu Fjölnismenn náð 10 stiga forystu, 30-20 og útlitið ekki gott fyrir Keflvíkinga. Gestirnir voru þó ekki á því að gefast upp og unnu upp forskot heimamanna, staðan í hálfleik 32-32.
Heimamenn skoruðu fyrstu stig seinni hálfleiks og juku forskot sitt jafnt og þétt í þriðja leikhluta. Þeir börðust vel og sóttu grimmir sóknarfráköstin. Fjölnir leiddi eftir þriðja leikhluta með 16 stigum, 65-49 og ljóst að róðurinn var orðinn þungur fyrir Keflvíkinga. Lítið gekk í sóknarleik gestanna í fjórða leikhluta og héldu heimamenn þeim í 10 stigum í fjórðungnum. Lokatölur í leiknum 84-59 og Fjölnir því komnir áfram í undanúrslit drengjaflokks.
Myndir úr leik á Facebook-síðu Karfan.is