Keflavíkurstúlkur urðu Íslandsmeistarar í Stúlknaflokki í dag þegar þær lögðu Hauka af velli í Hertz-Hellinum í Breiðholti. Keflavík byrjaði leikinn af krafti og komst í 0-4 með körfum frá Emelíu Ósk Gunnarsdóttur og Þórönnu Hodge-Carr. Haukastúlkur komu sér þó fljótt inn í leikinn, Sylvía Rún Hálfdánardóttir setti þrjú stig fyrir Hauka og Dýrfinna Arnardóttir bætti tveimur stigum við. Liðin skiptust á að hafa yfirhöndina en þegar um þrjár og hálf mínúta voru eftir af fyrsta leikhluta og staðan 10-15 fyrir Keflavík, tóku Hafnfirðingar leikhlé. Leikhléið hafði ekki tilskilin áhrif og voru það Keflvíkingar sem mættu dýrvitlausir til leiks að því loknu. Þær skoruðu síðustu 10 stig leikhlutans og leiddu að honum loknum með 15 stigum, 10-25.
Keflavíkurstúlkur hófu annan leikhluta eins og þær luku þeim fyrsta og juku forskot sitt í 20 stig, 20-30. Haukar hrukku í gang þegar skammt var liðið af öðrum leikhluta, leystu betur sterka vörn Keflvíkinga og sóttu mun ákveðnar á körfuna. Þær minnkuðu muninn niður í 13 stig áður en liðin gengu til klefa í hálfleik. Sterk vörn Keflavíkur hélt Haukum í tveimur stigum framan af í þriðja leikhluta, þær náðu 23 stiga forystu í stöðunni 28-51. Haukastúlkur spyrntu við fótunum og náðu að laga stöðuna fyrir lokafjórðunginn, staðan 42-59 eftir þriðja leikhluta. Sylvía Hálfdánardóttir fór fyrir rauðklæddum Hafnfirðingum, sótti grimmt að körfunni og var tíður gestur á vítalínunni í lok leikhlutans.
Haukastúlkur voru ákveðnar á upphafs mínútum fjórða leikhluta og minnkuðu muninn niður í 13 stig. Keflvíkingar tóku leikhlé eftir þegar þrjár mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta og náðu við það að stilla saman strengi sína. Haukar komust ekki nær og Keflavíkurstúlkur hömpuðu titlinum eftir öruggan 17 stiga sigur, 53-70.
Þóranna Kika Hodge-Carr var valin maður leiksins en hún sýndi mikla bráttu í leiknum, skoraði 10 stig, tók 5 fráköst, gaf 9 stoðsendingar og var með 6 stolna bolta.
Haukar 53 – 70 Keflavík (10-25, 16-14, 16-20, 11-11)