spot_img
HomeFréttirReglugerðinni um erlenda leikmenn verður ekki breytt

Reglugerðinni um erlenda leikmenn verður ekki breytt

Mikill meiri hluti formanna aðildarfélaga KKÍ telur að ekki sé rétt að breyta reglugerðinni um erlenda leikmenn á milli körfuknattleiksþinga, tilkynning þessa efnis birtist á heimasíðu KKÍ rétt í þessu. Stjórn KKÍ mun hinsvegar hefja strax vinnu við að finna niðurstöðu sem flest aðildarfélög geta sameinast um á körfuknattleiksþingi næsta vor. Sjá tilkynningu stjórnar KKÍ í heild sinni hér að neðan:

Á stjórnarfundi KKÍ fimmtudaginn 12. maí var tekin fyrir beiðni síðasta formannafundar um að skoða hvort breyta eigi reglugerð um erlenda leikmenn fyrir komandi tímabil. Í dag er heimilt samkvæmt reglugerðinni að vera með einn erlendan leikmann inn á vellinum á hverjum tíma og hefur sú regla verið í gildi frá því vorið 2013. Á stjórnarfundinum voru miklar og góðar umræður um málefni erlendra leikmanna.
 

Einnig var farið yfir þær umræður er áttu sér stað á formannafundinum sem og niðurstöðu kosninga um sama málefni frá seinasta KKÍ þingi, þar sem 70% voru fylgjandi núverandi reglu. Jafnframt heyrði stjórn KKÍ í formönnum 24 félaga innan hreyfingarinnar fyrir fundinn. Þar kom fram að ríkur vilji er innan hreyfingarinnar til þess að finna málamiðlun um erlenda leikmenn og að stjórn KKÍ leiði þá vinnu. Einnig kom fram að mikill meirihluti formanna aðildarfélaga KKÍ telur að ekki sé rétt að breyta reglugerðinni á milli þinga. 
 

Stjórn KKÍ samþykkti því á stjórnarfundi að breyta ekki reglugerð um erlenda leikmenn en hefja í stað vinnu við að finna niðurstöðu sem flest aðildarfélög geta sameinast um á körfuknattleiksþingi næsta vor.
 

Stjórn KKÍ mun hefja þá vinnu nú á vormánuðum og í haust á formannafundi verður kynnt áfangaskýrsla um málefnið sem og niðurstöður úr víðtækri heimildaröflun. Í kringum áramót verða drög að tillögu stjórnar fyrir næsta þing kynnt hagsmunaðilum til umræðu og frekari vinnslu. Stjórn mun síðan halda vinnufund fyrir næsta þing þar sem unnið verður áfram í þessu málefni. Að lokum mun tillaga stjórnar vera lögð fyrir körfuknattleiksþing næsta vor.

Af vefsíðu KKÍ

Fréttir
- Auglýsing -