Matthías Orri Sigurðarson er á heimleið úr námi í Bandaríkjunum eins og við greindum frá í gær. Matthías samdi við ÍR til tveggja ára en hann sagði við Karfan.is að ekkert sérstakt hafi komið upp á hjá honum við Columbus skólann heldur hafi hann haft litla ánægju af því að vera á mála hjá skólanum lengur körfuboltalega séð.
„Aðal ástæðan afhverju ég ákvað að hætta hérna er að ég var bara kominn með leiða af körfuboltanum og naut hans ekki. Komst svo bara að þeirri niðurstöðu að mér líkaði meira við hugmyndina af háskólaboltanum heldur en að taka þátt í honum. Þannig er að koma heim til að hafa gaman af því að spila körfubolta og sjá svo hvert það leiðir mig á næstu árum.
Það kom ekkert sérstakt upp á úti. Ég átti að fá stórt hlutverk í liðinu á næsta ári en ég hafði bara litla ánægju af því að vera þarna lengur körfuboltalega séð,“ sagði Matthías Orri við Karfan.is.