Friðrik Ingi Rúnarsson ritaði í gær góðan pistil um úrslitaviðureign CSKA Moskvu og Fenerbache í Euroleague en liðin mætast í Mercedes Benz Arena í Berlín í dag. Sjá allan pistil Friðriks hér að neðan:
Úrslitaleikur í Meistaradeild Evrópu fer fram á morgun (í kvöld) í Mercedes Benz Arena í Berlín. Leikurinn hefst klukkan 18:00.
Istanbul vs Moscow.
Liðin koma frá stórum og sögulegum borgum í Evrópu, Moskvu og Istanbúl.
CSKA Moscow vs Fenerbahce Istanbul.
CSKA Moscow hefur oft komist í Final Four og hefur unnið þennan titil en þetta er í fyrsta skipti sem Fenerbahce Istanbul er í þessari stöðu.
Faðir og sonur, prófessor og nemandinn.
Zeljko Obradovic þjálfari Fenerbahce og Dimtris Itoudis þjálfari CSKA Moscow eiga saman langa sögu.
Obradovic hefur unnið Meistaradeildina átta sinnum og þar af fimm sinnum með gríska liðinu Panathinaikos en þar kemur nefndur Itoudis inn í söguna en hann var aðstoðarþjálfari Obradovic hjá Panathinaikos í 13 ár.
Nú mætast þeir með lið sín til að spila um stærsta titil félagsliða í Evrópu.
Obradovic getur með sigri unnið sinn níunda meistaradeildartitil og yrði það þá með fimmta félaginu. Árangur sem verður varla leikinn eftir, hvorki í körfubolta né öðrum íþróttum.
Dimitris Itoudis getur með sigri unnið sinn fyrsta meistaradeildartitil sem aðalþjálfari.
Það voru margir sem spáðu því að þessi lið myndu mætast í úrslitaleik, var sem draumaúrslitaleikur í hugum margra. Nú hefur það ræst og má búast við skemmtilegum leik, tveggja frábærra liða.
CSKA er með einn besta bakvarðardúett í Meistaradeildinni í þeim Milos Teodosic og Nando De Colo og fyrirfram talið að liðið hafi betri stöðu en Fenerbahce í bakvarðarstöðunum. Á hinn bóginn er Fenerbahce með hávaxnari leikmenn og hafa mögulega einhverja yfirburði þar. Bæði lið spila skemmtilegan liðsbolta þó auðvitað séu leikmenn í báðum liðum sem geta skorað upp á sitt einsdæmi ef því er að skipta.
Leikmenn sem vert er að skoða sérstaklega og þeir sem mest mun mæða á:
CSKA Moscow:
Franski landsliðsmaðurinn Nando De Colo er skorunarmaskína og finnur alltaf leiðir til að skora og hjálpa liði sínu til að vinna. De Colo skoraði 30 stig í undanúrslitaleiknum.
Milos Teodosic er jafnvígur á að skora og deila boltanum til samherja. Sem dæmi skoraði hann aðeins átta stig í undanúrslitaleiknum en sá um að dreifa boltanum vel og taka bestu ákvarðanirnar fyrir lið sitt.
Kyle Hines er stórkostlegt eintak, er ekki sá hæsti en er líkamlega sterkur og staðsetningar hans skila honum ávallt bestu stöðu til að taka fráköst eða skora auðveldar körfur. Fenerbahce verður að halda honum frá körfunni.
Andrey Vorontsevich er framvörður sem getur skotið að utan sem og skorað nær körfunni. Hann hefur mikla reysnlu og var m.a. í liði CSKA sem vann Meistaradeildina 2008 fyrir utan alla landstitlana og svo hefur hann einnig verið í rússneska landsliðinu á síðustu árum og m.a. þegar liðið vann brosn á EM 2011.
Fenerbahce:
Luigi Datome, ítalski landsliðsmaðurinn, er feykilega mikilvægur leikmaður og hefur Obradovic mikið traust á honum. Hann er einkar fjölhæfur leikmaður sem gerir sittlítið af hverju, á báðum endum vallarins. Fyrir utan svo skeggið og hárið sem á sér enga hliðstæðu í liðunum.
Bogdan Bogdanovic getur skorað í kippum á stuttum tíma eins og sást í undanúrslitaleiknum í gær er hann skoraði níu stig í framlengingunni. Frábær skotmaður sem alltaf er að bæta sinn leik og þróa.
Jan Vesely, Tékkinn fljúgandi, hefur náð sér af meiðslunum sem héldu honum frá í nokkrar vikur og skiptir það miklu máli fyror Fenerbahce. Hann er mikill íþróttamaður og skorar gjarnan mikilvægar körfur. Hann er einnig litríkur og leiðist ekki að tendra upp í stuðningsmönnunum á pöllunum, svoleiðis leikmenn eru gull.
Ekpe Udoh er frábær varnarmaður sem var með flest varin skot í Meistaradeildinni í vetur. Hann bindur saman vörnina og gefur samherjum sínum mikið sjálfstraust að setja aukna boltapressu á andstæðinga sína út á velli. Það er gott að vita af Udoh fyrir aftan sig. Að auki er hann seigur í sókninni og týnir mola hér og þar og skilar þeim í körfuna.
Kostas Sloukas, Grikkinn knái, verður að vera með í upptalningunni. Hann byrjar yfirleitt ekki inn á en endar marga leiki. Hann er leikstjórnandi með mikla reynslu en hann hefur unnið Meistaradeildina tvisvar með Olympiacos, 2012 og 2013. Obradovic treystir gríska leikstjórnandanum þegar á þarf að halda og finnst mikið öryggi að hafa hann á vellinum, hvort sem Bobby Dixon, sem er sá sem byrjar alla leiki sem leikstjórnandi, er inn á líka eða á bekknum.
Eins og áður segir hefst leikurinn klukkan 18:00 í kvöld.
Mín spá:
Fenerbahce
Í myndbandinu má sjá þjálfarana og tvo leikmenn á blaðamannafundi fyrir úrslitaleikinn.