Jóhann Árni Ólafsson mun koma til með að leika með sínu uppeldisfélagi að nýju en Jóhannhefur komist að samkomulagi við Njarðvíkinga sem undirritað var í gærkvöldi. Jóhann Árni líkt og flestir vita sleit barnskóm sínum í Njarðvíkinni og átti góðu gengi að fagna með yngriflokkum félagsins og þegar líkamsburðir voru nægir var hann fljótur að koma sér í lið meistaraflokks klúbbsins. Jóhann hélt til Grindvíkinga árið 2011 og hefur leikið með liðinu síðan og vann tvo Íslandsmeistaratitla með liði Grindavíkur.
"Jóhann er auðvitað uppalinn Njarðvíkingur í húð og hár og okkur mikið gleðiefni að endurheimta hann aftur í Ljónagryfjunna. Jóhann er þekkt stærð í deildinni, sterkur varnarmaður og auðvitað hokinn reynslu sem mun nýtast liði okkar vel á komandi leiktíð." sagði Gunnar Örlygsson formaður kkd. UMFN í samtali við Karfan.is þegar samningar voru undirritaðir.
Njarðvíkingar eru nú í óðaönn að leggja lokahönd á lið sitt fyrir komandi tímabil og vantar í raun aðeins lokahnykkinn en það ætti svo sem ekkert að vera leyndarmál að þeir þurfa "kjöt í teiginn" og þar liggur lokapúslið.
Njarðvíkingar hafa því endurheimt nú tvo uppalda leikmenn sína en auk Jóhanns Árna hefur líkt og flestir vita Daníel Guðni Guðmundsson tekið við þjálfun liðsins.