spot_img
HomeFréttirKári: Skólinn stendur ekki í vegi fyrir landsliðsverkefnum

Kári: Skólinn stendur ekki í vegi fyrir landsliðsverkefnum

Kári Jónsson gekk til liðs við Drexel háskólann á dögunum og mun leika með liðinu næsta vetur á fullum skólastyrk. Karfan.is náði í skottið á Kára og spurði hann út í ákvörðunina.

 

Drexel háskólinn er í Philadelphia í Pennsylvania ríki og spilar í CAA riðlinum í 1. deild NCAA en þar eru háskólar á borð við Charleston, Hofstra, Northeastern, UNC Wilmington og fleiri. Hvað var það svo sem gerði útslagið fyrir Kára með að velja Drexel?

 

"Þjálfarateymið heillaði mig mjög. Þeir eru ekki búnir að vera sérstakir síðustu ár og skipta um þjálfarateymi fyrir þetta tímabil. Aðalþjálfarinn kemur frá Army skólanum eftir mjög góðan orðstír þar sem m.a. Coach K segir hann vera einn efnilegasta þjálfarann í bransanum."

 

Þjálfari Drexel er Zach Spiker en hann er í hópi með ekki lakari mönnum en Bob Knight og Mike Krzyzewski með yfir 65 sigra á sínum fyrstu 5 árum hjá Army háskólanum.

 

"Svo er aðal leikstjórnandinn þeirra síðan í fyrra að færa sig um set þannig að það ætti að vera nóg svigrúm fyrir mig að spila strax og fá að þroskast."

 

Býst Kári þá við að fá að spila mikið?

 

"Það er náttúrulega ekkert gefins í því. Ég þarf að sýna að ég eigi það skilið en ætti strax að fá pláss til að sanna mig allavega."

 

Kári fór í heimsókn til Drexel og New Hampshire en margir aðrir skólar höfðu áhuga á að fá þennan magnaða leikmann til sín. Kári og aðstandendur hans töldu hins vegar Drexel og New Hampshire standa upp úr og yrði valið milli þeirra.

 

Mun skólinn hins vegar standa í vegi fyrir þátttöku Kára í landsliðsverkefnum næstu árin? Kári segir að svo muni ekki vera.

 

"Ég tek þátt í U20 verkefnum í sumar ef ég verð valinn í það og eins og þeir segja þá er þetta bara auglýsing fyrir þá að hafa landsliðsmenn í sínum skóla. Það er sumarskóli sem þeir vilja helst fá leikmennina í til að létta á önninni á veturna en ég fæ að sleppa því." Kári gerir ráð fyrir að fara út í byrjun september.

 

Drexel hefur lengi vel einn leik á ári við nágranna sína í University of Pennsylvania en sá skóli spilar í "snobbdeildinni" sem kallast The Ivy League í 1. deild NCAA, ásamt Harvard, Princeton, Yale og fleirum. Í Ivy League eru t.a.m. háskólastyrkir ekki í boði fyrir íþróttamenn. Drexel og Penn eiga heimavöll í sömu götunni eða 33. stræti í Philadelphiu og aðeins ein húsalengja sem skilur hallirnar að. Í fyrra hófst viðureignin aftur eftir 3 ára hlé en deilur voru milli skólanna um hvar leikurinn ætti að vera spilaður. Fram að því hafði hann nánast alltaf verið spilaður á heimavelli Penn en verður nú til skiptis á heimavelli liðanna. Penn leiðir viðureignina með 15 sigra gegn 10 en Drexel hefur hins vegar sigrað síðustu 6 leiki. Næsti leikur verður á heimavelli þeirra öðru hvoru megin við áramótin.

 

Drexel hefur fjórum sinnum farið í úrslitakeppni NCAA í 1. deild og einu sinni komist í 32 liða úrslit og það var árið 1996.

Fréttir
- Auglýsing -