spot_img
HomeFréttirSigmar Jóhann á vit ævintýranna í Bandaríkjunum

Sigmar Jóhann á vit ævintýranna í Bandaríkjunum

Hinn 17 ára gamli Sigmar Jóhann Bjarnason úr Fjölni heldur brátt á vit ævintýranna í Bandaríkjunum en þessi Grafarvogskappi sem hefur komið við í yngri landsliðum Íslands mun ferðast um Massachusetts og leika körfubolta í sumar.

„Við munum nánast vera eins og NBA stjörnur að spila í móti með mið- og háskólaliðum sem og ferðast á milli skóla, ræða við yngri krakka og gefa áritanir,“ sagði Sigmar léttur á manninn þegar Karfan.is náði af honum tali en Sigmar heldur til Bandaríkjanna þann 15. júní næstkomandi. 

 

„Ég sótti um að spila með þessu liði sem heitir New England Colonials en það er skipað 11 leikmönnum allstaðar að úr heiminum en aðeins einn leikmaður frá hverju landi. Ég er reyndar fyrsti íslenski leikmaðurinn til að verða hluti af þessu verkefni,“ sagði Sigmar Jóhann sem mun dveljast ytri í um það bil mánuð. 

 

„Þetta verkefni er aðeins yfir sumartímann en á meðan við erum úti þá leikum við t.d. gegn liðum úr miðskólum og háskólum,“ sagði Sigmar en hvað tekur svo við?

 

„Ég fer örugglega aftur í Fjölni nema eitthvað gott tilboð berist manni,“ sagði Sigmar hress en hann hefur einnig augastað á því að koma sér jafnvel fyrir í miðskóla en fyrst er það eitt stykki sumarverkefni með New England Colonials.

Fréttir
- Auglýsing -