Golden State Warriors tryggðu sér sæti í úrslitum NBA deildarinnar gegn Cleveland Cavaliers með 88-96 sigri á Oklahoma City Thunder í nótt. Oklahoma hafði haft 3-1 forystu gegn Golden State í viðureigninni um sæti í úrslitunum en tapaði svo þremur leikjum í röð gegn ríkjandi meisturunum.
Curry negldi niður þristi á lokasekúndum leiksins til að gulltryggja sigurinn í annars spennandi leik. Það var sjötta þriggja stiga karfa hans í leiknum en hann skoraði samtals 32 í leikjunum 7 sem er enn eitt metið hjá þessum magnaða leikmanni – þ.e. flestar skoraðar þriggja stiga körfur í sjö leikja seríu.
OKC náði snemma góðri 13 stiga forystu sem Warriors tókst að saxa niður í 6 stig fyrir hálfleik. Sá seinni var algerlega eign meistaranna en OKC tókst ekki að bregðast við sóknarþunga Golden State líkt og raunin hafði verið í síðustu tveimur leikjum þar á undan.
Curry leiddi Warriors með 36 stig og bætti Klay Thompson 21 við í sarpinn. Hjá OKC leiddi Kevin Durant með 27 stig og bætti Russell Westbrook 19 stigum við auk þess að vera með 13 stoðsendingar.
Úrslitaviðureign Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers hefst á aðfararnótt föstudags kl. 01:00.